Tengdapabbi, Helga og Magnea komu á föstudaginn til Reykjavíkur og verða í viku. Þau höfðu í farteskinu hestburði af harðfiski, sem ég hakka í mig eins og fínn maður. Jafnframt er ísskápurinn nú fullur af ljúffengum laxaflökum. Það verður ofnbakaður lax í matinn á morgun.
# # # # # # # # # # # # #
Hearts rúllaði upp Hibernian og er komið í úrslitaleik skoska bikarsins gegn smáliði Gretnu. Ef Hearts heldur sínu striki í deildinni og kemst í meistaradeildina, þá mun Gretna komast í Evrópukeppni félagsliða óháð úrslitunum í bikarnum. Þar sem íbúar bæjarins eru rétt um 3.000 hlýtur þetta að teljast ótrúlegur árangur.
Ég verð að muna eftir að hnippa í Palla frænda þegar kemur að skosku bikarúrslitunum. Hann veit allt um sirkusinn hjá Hearts og ætti að geta uppfrætt mig um alla þessa nýju leikmenn sem óði Litháinn er búinn að kaupa til liðsins.
# # # # # # # # # # # # #
Á miðvikudaginn ætla ég að fjalla um Svarta dauða í vísindasögunámskeiðinu í Hí. Það þýðir væntanlega að ég þurfi að dusta rykið af gömlum pappírum annað kvöld. Svo er spurning hvort ég noti tækifærið og blaði í bólusóttar-bókinni sem ég keypti í London um daginn?