Má þetta?
Jæja, þetta fór nú öllu betur en á horfðist með gríslingana úr Njarðvíkunum. Þau voru hress og áhugasöm og ég skemmti mér konunglega við kennsluna – einkum var skemmtilegt að setja einn á Van de Graaf-hraðalinn og biðja svo annan um að rétta honum rörbút. – Það neistaði rækilega á milli þeirra…
En andskotakornið – hafa unglingar ekki breyst frá því að maður var sjálfur svona kríli? Þarna voru smástelpur með húðflúr á maganum og hvaðeina. Má það? Geta 15 ára krakkar fengið húðflúr eins og ekkert sé sjálfsagðara?
Á Hagaskóla í gamladaga hefði a.m.k. engum komið til hugar að fá sér húðflúr – svo mikið er víst.
* * *
Er farinn að fá í magann út af spurningakeppni – það hefur ekki gerst í mörg ár. Að þessu sinni er ég þó ekki keppandi – nema óbeint. Ég féllst nefnilega á að vera „vinurinn við símann“ hjá kunningja mínum sem er að mæta hjá Þorsteini Joð. Sjitt, ég er skíthræddur að fokka þessu upp og kosta drenginn þannig stórfé. – Vonandi kemst hann ekki í stólinn eða hringir í einhvern hinna ráðgjafanna…