Komum í dag heim úr tæplega hálfsmánaðar fríi, fyrst í sumarbústað á Flúðum, þá í viku hjá tengdapabba á Norðfirði og loks í eina nótt hjá Ólínu eldri og Valda að Bjargi í Miðfirði. Þegar heim var komið beið okkar bréf frá borginni. Ólína hefur verið innrituð í leikskólann Sólhlíð frá og með haustinu.
Sólhlíð var annar tveggja skóla sem við sóttum um. Hinn var Grænaborg, gamli leikskólinn minn (þá var Grænaborg reyndar starfrækt í bárujárnskrifli þar sem nú er bílastæði taugadeildar Landspítalans). Óttar, strákurinn hans Kolbeins Proppé hafði verið á Sólhlíð og þeir feðgarnir mæltu með staðnum og því hökuðum við við þann reit líka.
Það er að sumu leyti þrúgandi tilhugsun að láta eins og hálfs árs krakka fara á leikskóla, en ég er samt viss um að það verður henni fyrir bestu. Síðasta mánuðinn er Ólína í fyrsta sinn farin að uppgötva önnur börn. Á staðinn fyrir að vera hrædd við þau, sýnir hún þeim áhuga og tilburði til þess að vilja leika sér við þau. Smákrakka virðir hún þó ekki viðlits, heldur gefur hún sig bara að eldri krökkum. Spái því að hún eigi eftir að stjórna gulu deildinni á Sólhlíð harðri hendi.
# # # # # # # # # # # #
Þegar Ólína fer á leikskólann í haust mun Steinunn sömuleiðis fá aukið svigrúm, en hún hefur í raun verið í fullu starfi heima við síðustu fjórtán mánuðina. Nú ætti að vera tími í mastersritgerðina, sem hefur fengið að sitja á hakanum – einnig tungumálanám og svo vitaskuld félagsmálavafstur. Með þingkosningar framundan held ég að Vinstri græn gerðu vel í því að plata Steinunni í kosningavinnu, s.s. að halda úti kosningamiðstöðinni.
# # # # # # # # # # # # #
Almannaskarðsgöngin eru flott. Fyrir malbiksnörd eins og mig er það alltaf mikill áfangi að keyra nýjan veg eða jarðgöng. Eitthvað segir mér að þessi gerð ganga, stutt veggöng undir leiðinlegar axlir, verði mun algengari í vegakerfinu innan skamms tíma.
Fyrir austan verður mönnum tíðrætt um mikilvægi stórfelldrar jarðgangagerðar milli byggðarlaga, s.s. ný göng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar og aftur yfir í Mjóafjörð og norðurúr. Slíkar framkvæmdir, þó þarfar séu, hljóta að víkja að sinni fyrir göngum undir Hrafnseyrarheiði.
Og talandi um malbiksblogg: Hvað í ósköpunum er Vegagerðin að gera í Borgarfirðinum? Hringvegurinn virðist á stórum svæðum vera búinn að breiða sig yfir 15-20 metra svæði, án þess að sjáanlegur væri mikill munur á gamla og nýja vegastæðinu. Það stefnir í að frá Borgarnesi og upp að Hreðavatnsskála verði sannkölluð hraðbraut í líkingu við það sem finna má í dag á Mývatnsöræfum.
# # # # # # # # # # # # #
Síðdegis mæti ég í boltaspjall á Sýn til að ræða um mína menn á HM, Trinidad & Tobago, sem mæta Englendingum í beinni útsendingu. ístæða þess að ég styð T&T er einföld: Carlos Edwards, miðjumaðurinn knái og einhver besti leikmaður liðsins í síðasta leik er leikmaður Luton. Ég held samkvæmt skilgreiningu með öllum þeim liðum á HM sem hafa leikmenn FRAM og Luton innanborðs. Það gerðist síðast 1986, þegar Mal Donaghy lék með Norður-írum.
Trinidad & Tobago er ekkert labbakútalið. Þeir léku frábærlega gegn Svíum í fyrstu umferðinni og verðskulduðu fyllilega annað stigið. Þar sem Englendingum tókst ekki að sigra Paraguay nema með einu marki er ljóst að Trinidad má alls ekki tapa með meira en einu marki gegni tjöllunum og helst að ná stigi. Ég treysti því á öflugan varnarleik og að Carlos Edwards leiki ensku vörnina grátt með skyndisóknum.
# # # # # # # # # # # # #
Á dag tók ég á móti hópi þýskra gesta á safninu. Þetta voru alvöru gestir – blaðamenn sem fjalla um orkumál og orkuveitustjórnendur frá Þýskalandi. Allar spurningarnar voru góðar og vitrænar. Allir gestirnir voru lifandi og áhugasamir. Hópurinn var að lokum dreginn út í rútu af taugaveikluðum fararstjóra sem ekki vildi klúðra áætlun.
Það eru svona heimsóknir sem gera djobbið skemmtilegt. Og fyrir hverja slíka gleymast 10 slappar og óeftirminnilegar gestakomur…