Veikasti bloggari landsins
Stuna. Þessi flensa er ekkert grín og það var svo sannarlega ekki að hjálpa að vaka til kl. 4 í nótt að ljósrita Dagfara ásamt Palla. Ég er með hita, stíflað nef og sáran háls – og bara almennt í rusli. Ojjbara, það er leiðinlegt að vera veikur.
En þessi veikindi mín hafa jafnframt orðið til að opna augu mín. Þótt ég sé besti og frægasti bloggari landsins, þá er ég líka dauðlegur maður. Ég get fengið berkla, bráðalungnabólgu, botnlangakast og ég veit ekki hvað. Hugsum okkur bara ef ég lenti skyndilega inni á spítala – eða yrði rúmbundinn svo dögum skipti og gæti ekki bloggað. Hvað þá?
Það er ekki bara tóm gleði sem fylgir því að vera besti og frægasti bloggari landsins. Það er líka mikil ábyrgð. Fólk fylgist með þessum skrifum og raunar eru þau fastur og ómissandi þáttur í lífi fjölmargra netverja. Ber mér ekki að hugsa út í þetta fólk ef eitthvað myndi henda mig?
Á ljósi þessa, hef ég verið að velta því fyrir mér hvort ekki væri rétt að ég útnefndi næst-frægasta og besta bloggara landsins. Hann eða hún myndi þá gegna svipuðu hlutverki og varaforsetinn í Bandaríkjunum, sem er yfirleitt í skugganum en getur gripið inn í þegar þurfa þykir. Þannig mættu vesti og næst-besti bloggarinn ekki ferðast saman í flugvél og ef hryðjuverkamenn gerðu árás á Reykjavík myndi næst-besti bloggarinn fela sig í kartöflugeymslunum í Mosfellsdalnum.
En hver gæti þá orðið fyrir valinu? Viðkomandi yrði að hafa þá bloggfærni og útgeislun sem nauðsynlegt er í djobbið. Viðkomandi mætti þó ekki vera of lík/ur mér, því að það þykir betra í Bandaríkjunum að forseti og varaforseti vinni upp hvor annan. Þá gæti kandídat með annan bakgrunn en ég sjálfur orðið til að gefa embættinu víðari skírskotun og styrkja þannig bloggsamfélagið íslenska enn frekar.
Ég er að spá í að taka ákvörðun á næstu dögum um það hvern ég vel sem næst-besta bloggara landsins. Það er því sóknarfæri fyrir áhugasama að blogga vel á næstunni. Þá væri gott að fá uppástungur og tilnefningar. Hafa menn virkilega enga skoðun á því hvaða eiginleikum næst-besti bloggarinn þurfi að vera gædd/ur? Er samfélagið t.d. komið það langt að það sé reiðubúið fyrir konu í djobbið? Eða eru ennþá nokkrir áratugir í að slíkt sé hugsanlegt?
Jamm
* * *
Til hamingju með að vera orðin miðaldra (25 ára) Bryndís litla!