Minn gamli skólabróðir, Borgar Þór Einarsson, hefur komist í nokkur viðtöl upp á síðkastið vegna mótmæla Heimdellinga útaf álagningaskránum. Þeir settu upp leikrit hjá skattstjóra, þar sem þeir létust ætla að teppa skrárnar til að hindra að gestir og gangandi kæmust í þær. Ég gef mér að um leið og sjónvarpsmyndavélarnar fóru hafi þeir gefist upp og rölt á Bæjarins bestu.
Sú var amk rauninn síðast þegar Heimdallur greip til þessa ráðs. Það var sumarið 2000Â þegar Björgvin Guðmundsson var formaður. Við á Múrnum vorum orðnir þreyttir (bara strákar í ritstjórninni þá) á þessari árlegu umræðu og ákváðum að birta þessa grein, með lista yfir tekjur nokkurra ritstjórnarmeðlima og Björgvins Guðmundssonar.
Þegar við röltum niður á skattstofu bjuggum við okkur undir það versta. Þá var að koma hádegi á fyrsta framlagningardegi og Heimdallur hafði boðað að enginn myndi komast í skrárnar fengju félagið nokkru um það ráðið. En á skrifstofunni gripum við í tómt. Á ljós kom að Heimdellingarnir mættu um leið og opnað var og sátu í einn og hálfan tíma. Á meðan á því stóð komu vinir þeirra, sumarstarfsmenn á helstu fjölmiðlum og tóku myndir og viðtöl. Á ellefta tímanum var þrekið búið og mótmælaaðgerðunum sjálfhætt.
Þetta hefur mér alltaf þótt snautlegustu mótmælaaðgerðir sögunnar. Minnir dálítið á pólitíska andófsmanninn sem fór í hungurverkfall hluta sólarhringsins en mátti éta hvað sem er þess á milli.
Annars var Heimdellingunum vorkunn. Þeir komust auðvitað að því á skattstofunni að „álagningarskráin“ er ekki innbundin bók í stóru broti og einu eintaki. Skrárnar eru vitaskuld tölvuútprent og til í mörgum eintökum, sem þýddi að þótt stuttbuxnadeildin sæti fýld á svip við borð og lúrði á einu eintaki, þá hefði hvers sem vildi getað fengið annað eintak að líta í.
Hvað skyldu Borgar Þór og félagar hafa þurft að sitja lengi í ár? Þrjú kortér? Einn og hálfan klukkutíma? Hvað er hádegishléið aftur langt hjá bankastarfsmönnum?
# # # # # # # # # # # # #
Neistaflug um verslunarmannahelgina. Haldið austur á morgun. Er strax farinn að kvíða yfirvofandi hitabylgju.