Óskaplega er ég eitthvað lemstraður í dag. Lemstr þetta er í bakinu. Fékk einhvern hnykk í fótboltanum í gær, var aðeins aumur þegar heim var komið en vaknaði svo allur lurkum laminn. Gat varla hreyft mig á leikskólanum þar sem barnið er í aðlögun. Landið virðist eitthvað aðeins vera að rísa. Heitt bað eftir vinnu ætti svo að sjá um restina.
Bakverkir valda mér alltaf paranoju. Pabbi og mamma hafa bæði fengið brjósklos – og fyrir vikið sannfærist ég alltaf við minnstu óþægindi í baki um að röðin sé komin að mér og heimta skurðaðgerð.
# # # # # # # # # # # # #
Vek athygli á fundi í Friðarhúsi kl. 20 í kvöld. Sagnfræðingurinn Vigfús Geirdal ræðir um sögu hermálsins. Lofa fróðlegu erindi og fjörugum umræðum.
# # # # # # # # # # # # #
FRAM-stelpurnar gerðu sér lítið fyrir og unnu Hauka í Hafnarfirðinum. Þetta er frábær árangur! Mér sýnist handknattleiksdeildin hjá FRAM vera búin að einsetja sér að koma félaginu aftur í fremstu röð í kvennaboltanum. Það er viðeigandi. Held að ekkert lið eigi eins marga meistaratitla í kvennabolta og FRAM.