Róbert Marshall býður sig fram í efsta sæti Samfylkingarinnar á Suðurlandi. Vonandi gengur honum vel.
Ég var varaformaður Verðandi, félags ungs Alþýðubandalagsfólks, hluta af formannstíð Róberts. Meðan á því stóð vorum við nánast í daglegu sambandi. Það var gaman að starfa með Róbert og það var líka gaman að drekka með honum. Ansi oft sátum við fram á rauða nótt og bjuggum til umfangsmikil plott varðandi framtíð Alþýðubandalagsins, sem flest voru gleymd að morgni.
Ég var ekki sammála Róberti í öllum málum, en hann var alltaf heiðarlegur í sinni afstöðu. Hann hafði bæði hugsjónir og eldmóð, en var stundum of hvatvís. Fyrir vikið lenti ég stundum í þeirri stöðu að bremsa Róbert af þegar hann ætlaði að rjúka fram með eitthvert útspilið sem ekki var alveg úthugsað. Þannig held ég að við Róbert höfum virkað vel sem formanns- og varaformannsteymi.
Eftir að ég hætti tók Þorvarður Tjörvi Einarsson við varaformennskunni. Það samstarf virkaði ekki eins vel að þessu leyti, í það minnsta lenti Róbert í ýmsum árekstrum – við fólk úr flestum örmum flokksins. Þetta hafði í för með sér ýmis leiðindi og að lokum sneri Róbert baki við flokkapólitíkinni fyrir fréttamennsku og skildi þá eftir ýmis ógróin sár.
Ég vona að Róbert nái góðum árangri í prófkjörinu. Hann er miklu meiri vinstrimaður en nokkur hinna karlanna sem sækjast eftir toppsætinu. Ég jafna því t.d. ekki saman hvor er meiri hugsjónamaður Róbert eða Björgvin G. Sigurðsson. Jafnframt vona ég að Róbert hafi góða ráðgjafa – helst varnfærna plottara sem geta gripið í taumana þegar hann kemst á of mikið flug.