Hvernig er það – birtir DV ennþá síðuna „Sönn sakamál“, þar sem rakið er eitthvert gamalt, subbulegt morðmál frá útlandinu og sagt frá maklegum málagjöldum óþokkans? Aldrei fannst mér þetta áhugavert efni, en einhverjir hljóta að hafa lesið þetta ef marka má greinaframboðið.Gömul íslensk sakamál eru sömuleiðis vinsælt uppfyllingarefni í blöðunum. Ránmorðið í bensínstöðinni, leigubílsstjórinn sem var myrtur við Laugalækinn og ránið við bankahólfið á Laugaveginum – hversu oft hefur maður ekki lesið upprifjanir á þessum málum?
Almennt séð hef ég frekar blendnar tilfinningar í garð svona sagnfræði/fréttamennsku. Það er eitthvað sem truflar mig varðandi þetta. – Og það segi ég þrátt fyrir að Gvendur frændi sé líklega sá blaðamaður sem hefur verið mest í þessum skrifum á DV síðustu misserin og þó að Kjartan Bjarni og Sigursteinn Másson – höfundar sjónvarpsþáttanna Sönn íslensk sakamál – séu fjölskylduvinir á Mánagötunni. Æ, það er bara eitthvað sem pirrar mig við svona umfjallanir. Endalausar upprifjanir á morðmálum var t.d. stór galli á bókum Illuga Jökulssonar um sögu 20.aldar.
Blaðið hefur síðustu vikurnar verið í þessum sakamála-gír. Frásagnirnar eru margar hverjar 50-60 ára gamlar. Þær segja frá dónakörlum sem ráðast á konur á gangi í íbúðarhverfum, mönnum sem grípa til hnífa í ölæði og stinga drykkjufélaga sína, dólgum sem gera smástelpur út á togaraáhafnir, örvinluðum konum sem drepa ofbeldisfulla maka sína, trufluðum mönnum sem sálga gömlum kærustum og sjálfum sér á eftir… svona mætti lengi telja.
Þessar greinar Blaðsins eru ekki merkilegar og höfða ekki til sérstaklega göfugra hvata í lesandanum – en þær hafa þó eitt sér til ágætis. Það er að þær afhelga þá mynd af fortíðinni að þá hafi Reykjavík verið friðsæl eins og Kardimommubærinn eftir að Soffía frænka var búin að láta til sín taka. Gamla, huggulega, örugga Reykjavík þar sem enginn var drepinn og engri konu nauðgað inni í húsasundi – og allir gátu gengið öruggir um að næturlagi, er mýta.
Það er ágætt að minna sig á þetta þegar á okkur dynja fréttirnar af skaðræðisborginni Reykjavík, þar sem konur hætti sér ekki út einar á kvöldin; þar sem þingmenn leggja til að sjálfsvörn verði kennd í grunnskólum & þar sem símatímarnir á útvarpsstöðvunum eru fullir af liði sem segir að nú gangi greinilega ekki að hleypa fleiri útlendingum inn í landið með tilheyrandi nauðgunum og barsmíðum.