Fyrir svefninn í gær las ég í fyrsta heftinu af Rétti, sem Þórólfur í Baldursheimi gaf útgáfu á 1916.
Þetta er verulega óvenjulegt blað fyrir sinn tíma. Fjallar nær einvörðungu um pólitík í víðum skilningi og einkum um hugmyndafræði í staðinn fyrir sjálfstæðisbaráttustaglið sem komið var í algjöra blindgötu á þessum árum.
Markmið Þórólfs var að kynna fyrir Íslendingum heilsteypta pólitíska hugmyndafræði sem byggði á þremur meginstoðum: jafnaðarmennskunni, samvinnustefnunni og kenningum Henry George. Georgisminn er sérkennileg stjórnmálastefna, sem var nú fulltæknileg og þröng til að verðskulda -isma viðskeytið.
Athyglisvert var að lesa greiningu ritstjórans á stríðinu, sem hann taldi rökrétta framlengingu á óheftri samkeppni. Óheft samkeppni í viðskiptum var að mati Þórólfs birtingarmynd af ofbeldi og samfélag rekið á slíkum forsendum hlyti að leiðast út í stórstyrjaldir eðli málsins samkvæmt.´
Fáir hugmyndafræðingar hafa farið jafnrækilega úr tísku á tuttugustu öld og Henry George.