Glæsilegt hjá félaga Róbert að taka þriðja sætið hjá krötunum, þrátt fyrir að koma seint inn í slaginn og hafa minna bakland en sitjandi þingmenn. Það er mikill munur að fá Róbert í forystusveit Samfylkingarinnar en losna við Jón Gunnarsson, sem hefur einkum varið þingmannsferli sínum í að reyna að skæla út áframhaldandi hersetu. Ég samgleðst Róbert Marshall innilega.
Hins vegar er ég ekki eins viss um að forysta Samfylkingarinnar sé alveg jafnkát með niðurstöðuna. Það stefnir í að Samfylkingin verði ekki með neina þingkonu af landsbyggðinni á næsta kjörtímabili – og í Suðurkjördæminu, þar sem helmingur kjósenda er af Suðurnesjum þykir varla gott að hafa engan frambjóðanda þaðan í fimm efstu sætunum. Og úr því að farið er að tala um hreppaskiptinguna – þá er óneitanlega kyndugt að sjá þrjá Eyjamenn í fimm efstu sætunum…