Til varnar ISG

Pólití­sku spjallþættirnir munu næstu vikuna snúast um prófkjörið hjá krötunum og þá sérstaklega slappa útkomu formannsins. Það er kostulegt að fylgjast með leikritinu sem Ingibjörg og Össur leika. Hann þykist voða hissa og ánægður með stuðninginn, hún lætur eins og ekkert sé og segir að prófkjör séu svona óútreiknanleg.

Bæði eru þau augljóslega að ljúga. Þau vita – eins og allir sem eitthvað vita um hvernig flokkar og prófkjör virka – að svona niðurstaða fæst ekki nema eftir plott. Össur Skarphéðinsson býður sig fram í­ 2-3 sæti en fær mörghundruð atkvæði í­ 1.sæti. Á prófkjöri sem snýst svona mikið um smalanir, þá getur slí­kt ekki gerst nema með því­ móti einu að frambjóðandinn og hans fólk sendi út þau tilmæli að setja viðkomandi efstan. Þetta heitir á mannamáli að plotta gegn formanninum.

Nú skyldi enginn halda að ég sé á móti plottum, undirróðri og drullumixi. Ég var í­ Alþýðubandalaginu sem gekk fyrir plottum, undirróðri og drullumixi. Sumir af mí­num bestu vinum eru plottarar, undirróðursmenn og drullumixarar.

Á mí­num huga hljóta plott hins vegar að hafa tilgang – eitthvert markmið. Spurt er: trúir Össur Skarphéðinsson að hann eigi mögulega endurkomu sem formaður Samfylkingarinnar? Nei, fjandakornið. Reynir hann að grafa undan formanninum til þess að koma einhverjum öðrum í­ hennar stól? Tja, hver ætti það svo sem að vera?

Eina rökrétta niðurstaðan er að úrslitin í­ prófkjörinu séu niðurstaða einhverskonar hefndarbrots, þar sem frústreraður leikmaður í­ tapliði klippir niður framherja andstæðinganna í­ uppbótartí­ma án sýnilegrar ástæðu.

Hvað gengur fólki til að stinga formanninn í­ stjórnmálaflokknum sí­num í­ bakið ef markmiðið er ekki að steypa honum? Lá Ingibjörg svona vel við höggi?

Plott, undirróður og drullumix eru göfugar hefðir í­ stjórnmálum, en þessar hefðir ber að umgangast af virðingu. Svona vinnubrögð eru til þess fallin að koma óorði á okkur hin sem kunnum með þessi tæki að fara!

# # # # # # # # # # # # #

The Chicken Commander, heimildarmynd Kristins Hrafssonar og Friðriks Guðmundssonar verður sýnd í­ Friðarhúsi mánudagskvöld kl. 20. Þetta er erlenda útgáfan af Íslensku sveitinni og nokkuð frábrugðin henni. Hvet sem flesta til að mæta.