Það er kannski fullseint í rassinn gripið að kvarta yfir sjónvarpsdagskrá gamlárskvöldsins núna, en ég held að ég láti samt vaða: hvaða rugl var eiginlega í gangi hjá erlendu deildinni á fréttastofu Sjónvarpsins?
Það er gömul hefð að sýndur sé á gamlárskvöld annáll með helstu erlendu fréttum ársins. Það var ekki gert að þessu sinni.
Á staðinn var sýndur þáttur þar sem önnur hvor frétt fjallaði um Íslendinga í útlöndum eða langsótt tengsl Íslendinga við heimsfréttirnar. Dæmi:
* Íslenskir bissnesmenn halda partý í London og Tom Jones treður upp
* Extrabladet talar illa um Íslendinga
* Íslendingar kaupa West Ham
* Kynnir á Óskarsverðlaunahátíðinni segir brandara um Björk
* Nokkrir Íslendingar rifja upp atburðina 11. september 2001
* Íslendingar gefa út blað í Danmörku
* Íslendingar veiða hvali, sumir útlendingar foxillir
– Stundum var ómögulega hægt að koma með íslenska vinkilinn á erlend stórtíðindi, en það var þá bætt upp með því að rifja upp hvernig Bogi ígústsson eða Páll Magnússon fluttu þjóðinni viðkomandi frétt á Sjónvarpinu.
Hafi kjánahrollurinn yfir þjóðhverfunni í þessum meinta erlenda annál ekki verið nægur, þá toppaði afkynningin allt. Þar voru spilaðar „hnyttnar upptökur“ af fréttamönnum að mismæla sig – flestar upptökurnar voru frá undirbúningi kosningasjónvarpsins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Það var kannski ágætla viðeigandli miðað við annað í þessum „útlensku“ fréttum.
# # # # # # # # # # # # #
Paul og Claire komu í mat í kvöld. Við keyptum sesam-bleikjuna í Fylgifiskum, sem er alltaf pottþétt redding ef maður vill góðan mat án þess að hafa tíma til matargerðar. Reykt silungasalat var meðlæti.
Fyrr um daginn hafði Paul gaukað því kurteislega að mér að þau hjónin væru lítið gefin fyrir sjávarfang. Hann borðar t.d. helst ekki skelfisk. Ég hlustaði ekkert á það og benti honum á að hann væri greinilega of vanur Sellafield-menguðum smásílum úr írska hafi. Það fór líka svo að þau hámuðu í sig bleikjuna og eru strax farin að manna sig upp í að borða fisk á veitingastöðunum í ferðinni.
Hvítvínsdrykkjan yfir matnum reyndist ágætis undirbúningur fyrir fótboltasprikl kvöldsins. Ég raðaði inn mörkum – en það skal viðurkennt að ég skokkaði nú ekki mikið til baka í vörnina.
# # # # # # # # # # # # #
Nú má Moggabloggið sko fara að gæta sín. Palli er búinn að setja upp flestarallar Kaninku-síðurnar, s.s. þeirra Steinunnar, Sverris og Kolbeins.
Kjöldrögum Moggabloggið einu sinni, eldsnemma að morgni!