Á gær átti ég leið í gegnum Teigahverfið, sem gerist nú ekki á hverjum degi. Þar rak ég augun í veglegt ljósaskilti við Teigakjör, eina af síðustu gömlu hverfisbúðunum í Reykjavík. Á skiltinu kom fram að þar væri höndlað með íslenskar og rússneskar matvörur.
Þetta fannst mér merkilegt. Það hafa oft birst fréttir af pólsku búðinni í Hafnarfirði, en að hægt væri að finna rússneska verslun í Teigunum eru alveg nýjar fréttir.
Þekkja lesendur þessarar síðu eitthvað til rússnesku deildarinnar í Teigakjöri? Er þar að finna einhverjar þær krásir sem vert er að gæða sér á? Spyr sá sem ekki veit.
# # # # # # # # # # # # #
Á morgunútvarpinu var rætt við Guðmund Magnússon um Fríkirkjuveg 11 og byggingarsögu hússins. Á máli hans kom fram að þetta hefði verið fyrsta raflýsta íbúðarhúsið í Reykjavík. Það held ég að sé ofmælt.
Það er rétt hjá Guðmundi að í tæknisögulegu tilliti er Fríkirkjuvegurinn stórmerkilegt hús. Það var væntanlega fyrsta húsið í bænum með rennandi vatn, sem dælt hefur verið úr nálægum brunni – enda tók vatnsveita Reykjavíkur ekki til starfa fyrr en 1909, ári eftir að húsið var byggt.
Thor Jensen var forsjáll og lét koma fyrir vatnsleiðslum, gaspípum og raflögnum – þótt ekkert þessara veitukerfa væri komið til sögunnar. (Gaman væri reyndar að vita hvort eitthvað af þessum upphaflega búnaði sé enn fyrir hendi í húsinu.) Á ljósi þess að Elliðaárvirkjun tók ekki til starfa fyrr en 1921, kunna raflagnirnar í húsina að virðast ótrúleg fyrirhyggja – sú var þó ekki raunin.
1906 til 1908 lagði Halldór Guðmundsson raffræðingur raflagnir í tugi húsa í bænum, í þeirri fullvissu að rafmagnsveita væri á næstu grösum. Fríkirkjuvegur 11 var eitt þessara húsa og fjarri því það fyrsta.
Eigendur sumra þessara húsa treystu að öllu leyti á hina fyrirhuguðu rafveitu bæjarins, en aðrir áttu þess kost að tengjast rafmótorum sem fyrir voru í bænum, s.s. í tengslum við rekstur kvikmyndahúsa eða annarrar starfsemi. Trésmiðjan Völundur var raflýst árið 1905 og með tímanum fjölgaði þeim húsum sem fengu rafmagn frá henni. ín þess að hafa um það pottþétt gögn geri ég ráð fyrir að einhver íbúðarhús hafi verið komin í þann hóp þegar árið 1908.
Það er því hæpið að gefa Fríkirkjuvegi 11 titilinn „fyrsta raflýsta íbúðarhúsið“ – en hitt er hárrétt að tæknisögulega er húsið eitt það merkasta í Reykjavík. Þegar og ef það verður að veruleika að koma upp safni um Thor Jensen og sögu hússins, vona ég að þessum þáttum verði sinnt sérstaklega – einkum ef einhverjar slíkar minjar er enn að finna í húsinu. Að mínu mati gæti kyndiklefinn í kjallaranum verið allt eins merkilegur í sögulegu tilliti og stássstofurnar á efri hæðunum.
Megi Moggabloggið læsast inní kyndiklefa!