Þegar maður er orðinn fullorðinn og hefur veikst ótal oft, fengið slæman hita, ælt lungum og lifur eða hóstað sig bláan, kippir maður sér ekki svo mikið upp við eina flensuna til eða frá. Auðvitað veit maður – meira að segja í verstu dýfunum – að eftir nokkra daga verður allt komið í lag aftur.
Maður þarf hins vegar að minna sig á að í huga smábarns er þetta ekki alveg svona einfalt. Núna, dagana sem Ólína er að jafna sig á hlaupabólunni og hrúðrin að hrynja af henni, er betur og betur að koma í ljós hvað svona veikindi (þrír dagar með um 40 stiga hita og skrokkur með slíkum fjölda af bólum að læknar höfðu ekki séð annað eins) taka sinn toll.
Fram að þessari pest, hafði barnið fengið 1-2 daga pestir, eyrnabólgur í eina nótt o.þ.h. Þær voru allar gleymdar eftir sólarhring. Þetta var hins vegar annað og meira.
Á kvöld settum við stelpuna í bað. Hún ærðist þegar baðið var nefnt og hún argaði alla leiðina oní og uppúr aftur. Eina rökrétta skýringin er sú að barnið höndli það ekki að sjá skrokkinn á sér útsteyptan af bólum. – Því þótt við vitum að þær muni hverfa á nokkrum vikum, er ekki hægt að útskýra það fyrir tæplega tveggja ára krakka.
Á morgun skutlaði ég stelpunni á leikskólann. Um leið og ég beygði út af Lönguhlíðinni í áttina að Sólhlíð byrjaði hún að söngla „Bogga! Bogga!“ – Enda er Bogga, forstöðukonan á gulu deildinni átrúnaðargoð allra krakkana. En um leið og ég kvaddi, brotnaði hún saman og grét og grét. Hún tók því raunar verr að ég færi burtu núna en þegar hún byrjaði á leikskólanum í haust. Okkur skilst að hún hafi verið óskaplega lítil í sér allan daginn.
Þegar kemur að því að svæfa barnið tekur sama sagan við við. Skyndilega hefur hún miklu meir þörf fyrir snertingu. Yfirleitt hefur mér dugað að liggja við hliðina á henni og söngla lagasyrpu með „Dvel ég í draumahöll“, „Ólafur reið með björgum fram“ og „Stál og hnífur“. Núna skríður hún upp á handlegginn minn eða liggur jafnvel með hausinn oná vömbinni á mér – í stellingu sem getur ekki leitt til annars en vöðvabólgu og hálsrígs.
Það er skrítið að sjá stelpuna sína minnka um 2-3 númer, á sama tíma og hún er að taka fáránlega hröðum framförum á ýmsum öðrum sviðum, s.s. í málþroska. Flóknasta orðið í orðasafninu er án vafa „Hebbeggi“ – sem vísar til gesta/drasl-herbergisins sem hún fær að heimsækja með höppum og glöppum.
# # # # # # # # # # # # #
Á dag lá Kaninkan niðri í allnokkra klukkutíma. ístæður þessa eru ókunnar, en ekki þarf auðugt ímyndunarafl til að finna skýringuna.
Getur það verið tilviljun, að um það leyti sem rökstudd og málefnaleg gagnrýni Kaninku-bloggara er farin að skekja undirstöður Moggabloggsins, skuli síðan leggjast á hliðina? Ég held nú síður!
Með þessum lúalegu árásum hefur Moggabloggið gengið of langt! Til þessa hefur ritari þessarar síðu reynt að vera hófstilltur í gagnrýni sinni á Moggabloggið, en nú duga engin vettlingatök! Hér eftir verða formælingarnar kröftugri en nokkru sinni fyrr og áhrínisorðin ekki spöruð!
Megi Moggabloggið enda í stjórnmálaflokki með Valdimar Leó, Kidda Sleggju og Jóni Magnússyni… (Úbbs, gekk ég kannski aðeins og langt í þetta skiptið?)