Ef ég eyði of miklu í mat og reikninga einhvern mánuðinn og lendi í peningaþurrð á tékkheftinu, þá liggur beinast við að fara í bankann og semja um yfirdrátt. Ef peningavandræðin væru stórvægilegri myndi ég jafnvel taka bankalán til lengri tíma.
Mögulega væri þriðji kosturinn í stöðunni – að fara til mömmu og pabba. Þau gætu vísast lánað mér aur í einhverja mánuði. Þetta gæti jafnvel verið sérlega hagkvæmur kostur fyrir mig, því þau myndu tæplega innheimta vexti, verðbætur eða krefja mig lántökugjald.
Það er hentugt að eiga inngrip með smálán frá vinum og ættingjum, en kallar þó varla á viðtöl í Viðskiptablaðinu um framsækna og nútímalega fjármögnunarkosti.
Núna hafa Faxaflóahafnir sent frá sér tilkynningu þar sem fyrirtækið býðst til að koma að fjármögnun Sundabrautar. Þetta tilboð er sent ríkisstjórn sem er á síðustu starfsvikum sínum – eftir að þingið er farið heim, en greinilega vænst svara í hvelli.
Frá þessu mikla snjallræði er sagt í öllum fjölmiðlum á gríðarlega jákvæðan hátt, líkt og alveg ný staða sé komin upp í málinu. Nýr og spennandi fjármögnunarkostur er kominn upp á borðið!
En hvað þýðir þetta á mannamáli? Jú: hálfopinbert fyrirtæki býðst til að lána ríkinu pening (væntanlega með litlum vöxtum) til að flýta fyrir framkvæmd. – Stefán fær fimmtíuþúsundkall lánaðan frá pabba sínum til að geta keypt sér sjónvarp núna en ekki eftir hálft ár!
Hver eru tíðindin? Er ríkissjóður í þeirri stöðu að eiga erfitt með að fá hagstæð framkvæmdalán? Nei, ekki skilst manni það. – Hefði það vafist fyrir ríkinu peningalega að rigga upp þessum vegi og taka svo peningana af fjárlögum næstu ára? Nei, það er víst ekki vandinn.
Þegar stjórnmálamenn tala um leita þurfi „nýrra leiða“ við fjármögnun á stórframkvæmdum – og þá sérstaklega að „nýta kosti einkafjármögnunnar“ – þá er það yfirleitt skrauthvörf fyrir: byggjum draslið bara strax og látum ríkið taka lán fyrir þessu, helst hjá viðskiptabanka byggingafyrirtækisins á hagstæðum vöxtum.
Eitthvað segir mér að hagfræði-Nóbellinn sé ekki á leiðinni uppá skerið að þessu sinni.
En það er þó gleðilegt að Faxaflóahafnir séu svona stöndugar. Það eru kannski hafnargjöldin af hvalbátunum sem eru að vega svona þungt?
Megi Moggabloggið fá heimsókn frá Sea Shepherd.