Leiðtogafundur
Það var merkilegur dagur í bloggheimum í gær, því þá hittust frægasti og besti og næstfrægasti og næstbesti bloggari landsins á kaffihúsi sem kennt er við fjöldamorðingja og illmenni vestur af fjörðum. Hugsið ykkur bara ef hryðjuverkamenn úr röðum bloggandstæðinga hefðu látið til skarar skríða á þeirri stundu og sprengt staðinn í loft upp? Þá hefði nú ekki verið gaman að vera til. – Það er ekki að ósekju að forseti og varaforseti Bandaríkjanna mega ekki fljúga saman í flugvél.
* * *
Þorskeldisáætlanir Kattarins eru stórmerkilegar og væri vel til fundið að sleppa einum gulum í sundlaug. Hins vegar er erfitt að komast fram hjá þessu með klórinn og ekki er líklegt að áhrifaríkt sé að sulla einhverri kemískri drullu út í laugarvatnið. Betra væri að fara með þorskinn í sundlaug Seltjarnarness, en hún er sem kunnugt er ekki með klór haldur saltvatni. Ætti þorskurinn að geta lifað þar góðu lífi, þótt eflaust sé hiti vatnsins í það mesta. Lykilatriðið er að Viðar gefist ekki upp!
* * *
Sá að búið er að stofna vef Morfís-keppninnar. Alveg er það magnað hvað sú keppni gengur áfram ár eftir ár og núna þykjast þeir hafa 16 þátttökulið, sem hlýtur að vera met. Ekki tókst mér að vinna þessa keppni fyrir MR á sínum tíma. Fórum þó í úrslitaleik 1993. Þar öttu kappi tveir drengir sem báðir ætla nú á þing fyrir íhaldið. Það voru þeir Siggi Kári, liðsstjóri Verslinga og Ingvi Hrafn, frummælandi MR. Ekki trúi ég því að þeir geri mikla hluti í prófkjörinu um næstu helgi.
MR hefur ekki unnið Morfís síðan 1988. Þá var þriðji íhaldsframbjóðandinn í liðinu. Biggi írmanns var nefnilega liðsstjóri. Birgir mun líka tapa í prófkjörinu.
Jamm