Hagstofa Íslands
Fór á Hagstofuna á áðan til að skrá breytt lögheimili. Fór þá að spá í því hvað það hlýtur að vera skringilegt að vinna í afgreiðslunni á svona stað. Nú upplifir stór hluti viðskiptavinanna það eflaust sem stórt skref í sínu lífi að skila inn eyðublöðum með tilkynningu um sambúð, breytingu á trúfélagi, umsókn um að skipta um nafn o.s.frv.
Einhvern veginn býst maður við því að konurnar í afgreiðslunni lifni allar við þegar þeim eru réttar umsóknirnar og segi eitthvað á borð við: Nei, sko! Ætlarðu að ganga úr þjóðkirkjunni? Enn gaman! Ertu búinn að vera að spá lengi í þessu? eða: Til hamingju, ertu að flytja í Norðurmýrina? Skemmtilegt! Systir mín á einmitt heima þarna í grenndinni – voða huggulegt hverfi. Heyrðu, eigum við ekki bara að skella okkur í kaffi til að fagna þessu? eða jafnvel: Hva? Ætlar þú að skipta um nafn og kenna þig við móður í stað föður? Það er mjög vinsælt núna. Viltu ekki bara nota tækifærið og taka upp eitthvað skemmtilegt millinafn í leiðinni – það kostar ekkert aukalega. Hvað með Habbakúk? Stefán Habbakúk Ingibjargarson er ansi hljómmikið nafn. Ekki?
En nei, ekkert kampavín, ekkert líflegt spjall eða einn bolli af svörtum Braga inni á kaffistofu. Staffinu á Hagstofunni gæti að sjálfsögðu ekki staðið meira á sama þegar maður réttir þeim velkta pappírana. – Næsti!
* * *
Greip rangan kaffibolla á áðan og tók gúlsopa. Hver skilur eftir sólarhringsgamalt kaffi á eldhúsbekknum? – Núna veit ég a.m.k. hvers vegna fyrirbærið ískaffi hefur aldrei náð sömu vinsældum og íste.
Jamm