Á kvöld ætlaði ég að skrifa mergjaða skammarfærslu hér á bloggið. Mér datt efnið í hug í morgun og var að bræða þetta með mér frameftir degi. Held að þetta hefði bara orðið helvíti fín færsla.
En svo mætti ég á Laugardalsvöllinn og sá FRAM sigra Fylki, 3:1. Og skyndilega langaði mig ekkert til að æsa mig lengur. Þvert á móti langar mig til að skrifa um eitthvað skrítið og skemmtilegt – eða bara eitthvað væmið um hvað barnið sé kúnstugt og hvað mér þyki vænt um konuna mína.
Fótbolti er hið nýja ópíum fólksins og ég er fíkill.
Reyndar er ég að ná ákveðnum tökum á þessari fíkn eða öllu heldur er mér að takast að stjórna henni þannig að gleðin sé vonbrigðunum yfirsterkari.
Fyrir nokkrum árum var ég í skralli ef FRAM gekk illa í deildinni. Sum fallbaráttuhaustin hugsaði ég um stöðuna í deildinni oft á dag í heilan mánuð. Það leið varla klukkutími án þess að rifjaði upp hversu mörg stig vantaði uppá og hvenær næsti leikur væri. Sama gilti um Luton í enska boltanum.
Hugsanlega hefur hrakfallaganga síðustu ára komið manni til nokkurs þroska – í það minnsta tek ég þetta ekki jafnmikið inn á mig núna og áður. Ósigrarnir eru vitaskuld ergilegir, en einhvern veginn lærist manni að bíta á jaxlinn og hrista þá af sér. Það gerist í það minnsta sífellt sjaldnar að ég verði miður mín yfir töpuðum fótboltaleik – og hefur þó ekki skort tilefnin til að brynna músum.
En sigurgleðin hefur ekki minnkað í samræmi við tapsárnina. Ég verð jafnkátur þegar mínir menn vinna leiki árið 2007 og 1997 – eða 1987 ef því er að skipta.
Þess vegna nenni ég ekki að skrifa neitt ergilegt og pirringslegt í kvöld.
Megi Moggabloggið aldrei upplifa það að sjá sína menn vinna leik.