Fór á pöbbarölt í gær ásamt Stebba Hagalín. Stoppuðum m.a. á tveimur börum sem ég hafði aldrei komið á fyrr. Annar var sportbarinn sem er í sama húsi og Vegas (er það við Vitastíg?) Það virðist notalegur staður til að horfa á fótbolta og þjónustan hlýleg. Undir lokin litum við svo inn á Boston – eða e-ð álíka, sem er í nánast ómerktu húsi við hliðina á Dillon.
Á barnum þar á milli heyrðum við á tal Íslendinganna á næsta borði við erlenda afgreiðslustúlku, sem gekk einkum út á að lofsyngja íslensku sundlaugarnar. Eftir langa mærðarrullu um þetta yndislega sundlaugavatn urðum við að blanda okkur í umræðurnar. Við sögðumst furða okkur á þessum sið að pissa í vatnið. Íslendingarnir spurðu okkur hvað í ósköpunum við værum að meina og hvaðan við kæmum? Við sögðumst vera austurrískir túristar í tveggja vikna fríi. (How do you like Iceland? – Very nice. – And the girls? – Well, they are good in football aren´t they? The men are handsome though.)
Aftur barst talið að sundlaugunum. Íslendingarnir þrættu fyrir að nokkur maður pissaði í laugarnar, en við staðhæfðum að börn og margir eldri borgarar gerðu það – einkum í heitu pottana. Sögðum að það sæist á sælusvipnum á þessum hópum.
Þau íslensku létu sig samt ekki. Á Íslandi pissar ekki nokkur maður í laugarnar – eða heitu pottana. Það getur verið að fólk geri það í Austurríki, en ekki á Íslandi. Ónei.
Á sagnfræðinni í Háskólanum var okkur kennt allt um kenningar Renans um þjóðerni -að það að vera þjóð snerist að miklu leyti um sameiginlegar minningar, en ekki síður um sameiginlega gleymsku. Getur verið að kjarni íslensks þjóðernis felist í að þræta fyrir það við útlendinga að börn og gamalmenni pissi í heita pottinum í sundlauginni?
Megi krakkarnir og gamlingjarnir pissa næst á Moggabloggið.