Ekki mætti ég á Gay Pride í dag. Þar með hefur mér enn ekki tekist að mæta á þessa skemmtilegu samkomu. Sum árin hef ég verið að vinna, í önnur skipti á ferðalagi eða bara illa fyrir kallaður. A.m.k. einu sinni var ég lagður af stað en hrökklaðist aftur heim vegna slagveðursrigningar.
Mér sýnist að skipuleggjendur þurfi alvarlega að íhuga að finna nýja dagsetningu til að koma til móts við þarfir mínar…
# # # # # # # # # # # # #
Góður sigur Luton á heimavelli í fyrstu umferðinni í enska boltanum. Andstæðingarnir voru Hartlepool, sem færðust upp um deild í fyrra. Alltaf erfitt að mæta slíkum liðum í fyrsta leik.
Helsta framlag Hartlepool til mannkynssögunnar átti sér annars stað á tímum Napóleons-styrjaldanna. Franskt herskip strandaði og í flakinu fannst apaköttur klæddur í franskan sjóliðabúning – augljóslega gæludýr einhvers skipstjórnandans. Hartlepool-búar gripu dýrið, yfirheyrðu það og dæmdu loks til dauða og hengdu fyrir njósnir. Enn í dag eru þeir uppnefndir „Monkey hangers“.
Af Luton-liðinu er það hins vegar að segja að sjö byrjunarliðsmenn í dag eru nýliðar og þeim á líklega frekar eftir að fjölga en hitt á næstunni. Utan vallar er enn sem fyrr allt í tómu rugli.
Það versta við að þurfa aftur að spila í þessari deild er að nú sér maður hvergi svipmyndir frá leikjum. Á mesta lagi að einu og einu marki sé póstað á YouTube. Næstverst er svo sú niðurlæging að þurfa að keppa í helv. neðrideildarbikarkeppninni sem eitt sinn hét framrúðubikarinn – en er nú kennd við einhvern málningarframleiðanda.