Að degi loknum

Á dag tók ég mér hálfsdags frí­ í­ vinnunni, enda í­ mörgu að snúast vegna aðgerðanna gegn heræfingunum. Ætli ég hafi ekki tekið 15-20 sí­mtöl við blaðamenn, í­slenska og norska. Sat fyrir hjá tveimur blaðaljósmyndurum og lenti í­ kappræðum á Stöð 2 á sama tí­ma og Steinunn var í­ viðtali á RÚV – nepotisminn er greinilega allsráðandi í­ friðarhreyfingunni. Oná þetta bættust svo sjálfar aðgerðirnar sem voru bráðskemmtilegar en tóku mikið á.

Ætla mætti að ég gæti hugsað mér að blogga langhund um þetta efni – en því­ fer ví­ðsfjarri…

Eftir þessa törn langar mig bara að hugsa um fótbolta (já, ég veit – ópí­um fólksins og það allt).

Luton er komið í­ aðra umferð deildarbikarsins eftir útivallarsigur á Dagenham & Redbridge sem eru nýliðar í­ deildarkeppninni. Sigurinn var svo sem ekkert tiltakanlega glæsilegur, en Drew Talbot skoraði annað markið sem er gleðilegt – þar sem hann er einn fárra framherja hjá okkur sem ekki er orðinn hálffertugur.

QPR féll hins vegar úr keppni fyrir Leyton Orient, sem er ergilegt fyrir Stebba Hagalí­n er gleðilegt fyrir Þór Bæring. Ég skoða reglulega Orient-bloggið hans, því­ við lesturinn finnst mér alltaf eins og ég styðji risaveldi í­ fótboltanum og sé ekkert svo sérstaklega galinn!