Hvað skyldi maður eiginlega vera búinn að lesa margar fréttaskýringar um írak síðustu misserin? Eftir allt greina- og fréttaflóðið fer maður að ímynda sér að maður þekki þetta land bara fjári vel. Reglulega kemur þó í ljós hversu gloppótt þessi þekking er í raun og veru.
Ég hafði t.d. aldrei heyrt um Yazidi-þjóðina fyrr en í vor þegar viðbjóðslegt myndband tók að berast manna á milli á netinu. Myndbandið, sem annar hver maður hefur séð, var upptaka úr myndavélasíma þar sem sjá mátti hóp karlmanna hundelta táningsstúlku og grýta hana til bana. Það fylgdi sögunni að glæpur stúlkunnar hefði verið sá taka saman við pilt sem fjölskyldu hennar eða íbúum þorpsins hefði ekki verið þóknanlegur.
Sagt var frá atvikinu í flestum fjölmiðlum – enda fregnir af „heiðursmorðum“, eins og það er kallað í fréttum, sívinsælt umfjöllunarefni. Margir bloggarar tjáðu sig líka um málið og var tónninn yfirleitt í þá veru að þetta væri enn eitt dæmi um hvað þessir ofstækisfullu múslimar væru sturlaðir.
Nema hvað morðingjarnir á myndbandinu voru alls ekki múslimar. Yazidi-þjóðin, sem virðist telja eitthvað á milli 300 og 800 þúsund manns, víðs vegar um Evrasíu og Ameríku – eftir því hvaða heimildir er stuðst við, hefur sín eigin trúarbrögð sem iðkendurnir telja mun eldri en Íslam. Sjá t.d. þessa umfjöllun. Megineinkenni þessara eingyðistrúarbragða virðist vera mikil áhersla á þátt engla sem tengiliðar milli manna og almættisins. Margt í þessari guðfræði virkar afar skringilegt, en líklega má segja þá sögu um öll trúarbrögð sem maður heyrir um í fyrsta sinn.
Myndbandið af stúlkumorðinu olli ekki bara reiði á Vesturlöndum, heldur einnig meðal múslima. Fólk sendi myndirnar sín á milli og formælti morðingjunum. Á miðri ringulreiðinni í írak varð sagan af stúlkunni sem var drepin fyrir það að verða ástfangin af múslima til þess að Yazidi-þjóðin var úthrópuð sem samansafn réttdræpra fúlmenna. Nokkrum dögum eftir að atburðurinn komst í hámæli stöðvaði hópur byssumanna rútu í grennd við heimabæ stúlkunnar, sleppti öllum kristnum og múslimum úr hópi farþeganna en myrti þá sem taldir voru Yazidi-trúar.
Á gær óku svo einhverjir sjálfskipaðir böðlar olíubílum inn á markaðstorg og aðra fjölfarna staði í byggðum Yazidi-fólksins og sprengdu í loft upp. Giskað er á að um 200 manns hafi farist í þessum tilræðum og geysimargir eru illa sárir. Morðingjarnir hljóta að vera ofsákátir yfir þessum maklegu málagjöldum fólksins.
Auðvitað er þetta helsjúkt. Hvernig getur nokkur manneskja talið sér trú um að fjöldamorð af þessu tagi séu réttmæt refsing fyrir myndband sem sýnir voðaverk nokkurra manna af sama þjóðerni? Og þó – ekki vafðist það fyrir fólki í okkar heimshluta að nota grimmdarverk talibana og kúgun á konum sem réttlætingu fyrir því að láta klasasprengjum rigna yfir Afganistan. Þetta er í raun sami hluturinn.
# # # # # # # # # # # # #
Flottasta íþróttagrein sem ég hef heyrt um lengi eru Skákhnefaleikar – þar sem menn keppa í boxi OG taflmennsku!
Legg til að Skáksambandi og Glímusambandið taki höndum saman. Skákglíma yrði augljóslega þjóðlegasta íþróttin – og loksins væri komið sport sem við gætum einokað.