Jæja, Ríkið í Austurstræti er víst búið að taka niður bjórkælinn til að draga úr áfengisneyslu á Austurvelli að kröfu borgarstjóra. Ég spái því að þetta muni svínvirka og að næstu 9 mánuðina eða svo verði mun minna um að fólk flatmagi með öldósir á torgum úti en verið hefur síðustu 3 mánuðina.
En hefði ekki verið hægt að fara milliveginn? Hvað með t.d. að skrúfa aðeins niður í kælinum – hafa ísskápsstillinguna á 1 en ekki 5? Hefði ekki mátt gauka þessu að borgarstjóra?
# # # # # # # # # # # # #
Það hlýtur að teljast mikilsverður áfangi í þroskaferli hverrar manneskju þegar hún lærir að skrökva. Á þessari grimmu veröld er nauðsynlegt að kunna að hagræða sannleikanum lítilsháttar – eða eins og Bubbi orðaði það: „…ef hann kann ekki að ljúga, hvað verður um hann þá?“
Það er því mikið gleðiefni fyrir okkur foreldrana að lygamörðurinn sé farinn að brjótast fram í barninu.
Um daginn kynnti ég nýja reglu til sögunnar. Þegar farið er að sofa á Ólína helst að liggja í sínu rúmi og þá er sungið fyrir hana. Hún má hins vegar líka skríða upp í rúmið okkar, en þá er enginn söngur. (Jamm, ég er algjör Dr. Spock.)
Á gær var Steinunn að svæfa meðan ég var að spila fótbolta. Þá sagði sú litla ofurblítt: „Mamma mín. Pabbi míns syngja í stóra rúmi…“