Tvö glanstímarit koma út á íslensku sem einvörðungu fjalla um alþýðlega sagnfræði. Ég gerðist strax í upphafi áskrifandi að Sögunni allri, sem Illugi Jökulsson ritstýrir. Nokkur eintök hafa komið út af henni og hefur blaðið alloft átt góða spretti.
Hitt ritið hefur aðeins komið út einu sinni og nefnist Sagan. Það er mun þykkara en blað Illuga en hefur þann galla að vera að öllu leyti þýðing úr skandinavísku, meðan hluti af efni hins blaðsins hefur verið fenginn úr íslenskri sögu.
Ekki veit ég hvort útgáfa þessa nýja blaðs hefur valdið miklu uppnámi hjá Illuga og félögum og hvort síðasta hefti beri að skilja sem viðbrögð við henni – en ef um stefnubreytingu er að ræða þá er hún mér lítt að skapi. Aðalgrein síðasta blaðs er um Díönu prinsessu og hafði sannast sagna lítið í sagnfræðirit að gera. Fram hjá þessu hefði mátt líta ef aðrar helstu greinar blaðsins hefðu ekki einnig fjallað um lífshlaup frægs fólks frá tuttugustu öldinni: Agöthu Christie og Elvis Presley.
Helsta íslenska efnið var grein um skrif Arngríms lærða annars vegar en hins vegar grein eftir Guðna Th. Jóhannesson þar sem lítill viðauki var í löngu máli prjónaður aftan við fyrri grein hans um afmarkað efni.
Ég vona að Illugi og félagar detti ekki í þá gryfju að mæta samkeppninni við nýja blaðið með endalausum umfjöllunum um Marilyn Monroe, James Dean eða Bítlana. Það er enginn hörgull á slíku efni annars staðar. Aðalaðdráttarefni blaðsins er einmitt umfjöllun um íslenska sögu. Mættum við fá meira af slíku að heyra!