Það telst víst mikil frétt að yfirmenn Þjóðkirkjunnar telji auglýsingu frá Símanum vera guðlast.
Á hvert sinn sem umræða af þessu tagi kemur upp, verður mér hugsað til þess þegar Hvalfjarðargöng voru opnuð fyrir bílaumferð og Spölur kynnti „lukkudýr“ ganganna – álfinn/dverginn Staupastein. (Voða sniðugt sko, vísun í örnefnið Staupastein og allt.)
Biskup mætti þungbúinn í viðtal og sagði það óþolandi að heiðnar vættir ættu að standa vörð um öryggi vegfarenda – og bætti því við að nú ættu sér stað stærstu átök heiðni og kristni í landinu frá árinu 1000.
…út af krúttlegri teiknimyndafígúru…
Eftir þetta hefur ekkert getað komið mér á óvart frá Biskupsstofu.
Spurning hvort við heiðingjarnir ættum ekki að blanda okkur í slaginn og mótmæla líka – svona til að fá að vera eins og biskupinn. Við gætum kveinkað okkur undan því að traðkað sé á heiðnum tilfinningum okkar með því að Síminn oti að okkur trúartáknum og að fyrirtæki úti í bæ sé að hampa einum trúarbrögðum á kostnað annarra… Best að benda Hilmari Erni á þetta.