Nú er Samfylkingin búin að gera að yfirlýstri stefnu sinni það sem ég hélt fyrir nokkrum vikum að hefði verið fljótfærnisþvaður í Björgvin G. Sigurðssyni. Sjá þessa frétt.
Reyndar er ég ekki viss um hvernig túlka beri fréttina. Á fyrirsögninni er talað um að Orkuveitur verði í „félagslegri meirihlutaeign“ – en í meginmáli fréttarinnar er reyndar bara talað um flutningskerfi orkunnar, sem er hreinn tæknikratismi. Fyrir almennan kúnna skiptir það miklu meira máli hver sér um smásöluna og sjálfa orkuframleiðsluna heldur en hvort fyrirtækið sem rekur háspennulínuna frá Búrfelli að Korpúlfsstöðum sé ehf, ohf, héraðssamlag eða e-ð annað.
En gefum okkur nú að fyrirsögnin sé rétt og stefna Samfylkingarinnar sé sú að orkufyrirtækin sjálf eigi að vera í „félagslegri meirihlutaeign“ en ekki bara fyrirtækið Landsnet. Það vekur ekki síður upp spurningar. Hugmyndin á bak við þetta er væntanlega sú að orkufyrirtæki séu ekki eins og hver önnur gróðafyrirtæki og megi ekki stjórnast af hreinum markaðs- og arðsemissjónarmiðum… Gott og vel. Þessu eru örugglega margir sammála.
En hverju breytir þá þetta með „meirihlutaeignina“? Getur einhver útskýrt fyrir mér hvað kapítalisti sem kaupir sér hlut í orkufyrirtæki – þótt um minnihluta sér að ræða – er að hugsa annað en markaðs- og arðsemissjónarmið? Daginn sem fjárfestir telur það góðan kost að eiga t.d. 20% í íslenskri hitaveitu, þá er ljóst að rekstur hennar snýst um nákvæmlega það sama og hvert annað fyrirtæki á markaði – að tryggja eigendum sínum ásættanlegan arð. Það verður engin eðlisbreyting við það þótt hlutur fjárfestisins fari yfir 50% – það eru sömu gróðasjónarmiðin sem ráða.
Ergo: Annað hvort eru menn á móti því að orkuveitur séu í eigu fjárfesta – þótt í litlum mæli sé – eða fella sig við að þær séu að fullu í þeirra eigu (og starfi þá mögulega í mjög ströngu lagaumhverfi sem komi í veg fyrir okur og svindl). Annað gengur ekki upp.
Ef einhver sér glóru í þessari stefnu væri gaman að fá útskýringu núna takk.