Egill Helgason og Stefán Friðrik Stefánsson skrifa efnislega sama pistilinn um íraska tónlistarmenn. Það styrkir kenningar um að þeir séu í raun einn og sami maðurinn. Ég minnist þess a.m.k. ekki að hafa séð þá hlið við hlið.
Pistill nafna míns er raunar örlítið langorðari, eins og búast mátti við, en Egill heldur sig við knappa stílinn:
Fólkið í sinfóníuhljómsveit íraks eru alvöru hetjur og segja okkur að hvað sem okkur finnst um innrás Bandaríkjanna í landið, þá getum við ekki skorast undan því að standa með þeim öflum sem vilja byggja upp mannsæmandi tilveru, réttlæti og lýðræði í landinu.
Margir hafa fyllst þórðargleði vegna hrakfaranna í írak, en andspænis hljóðfæraleikurunum og trú þeirra á tónlistina sér maður hvað það er ljót tilfinning.
Þetta er sérkennileg romsa. Nú hélt ég að flestallir teldu sig „standa með þeim öflum sem vilja byggja upp mannsæmandi tilveru, réttlæti og lýðræði“ í írak. – Ég þurfti a.m.k. ekki að lesa frétt um íraska tónlistarmenn til að óska fólkinu þar í landi mannsæmandi tilveru.
Stóra spurningin er hins vegar hvaða öfl það séu sem eru líklegust til að ná þessum markmiðum. Það er risavaxið stökk í röksemdafærslu frá því að dást að klassískum tónlistarmönnum sem halda áfram að leggja stund á list sína í Bagdað yfir í að komast að þeirri niðurstöðu að sú listsköpum gefi ríkjandi stjórnvöldum einhverja réttlætingu.
Sinfóníuhljómsveit íraks er sextíu ára gömul. Hún var stofnuð í valdatíð Hashemítana, sem voru breskir leppstjórar. Hljómsveitin hélt áfram að spila eftir írösku byltinguna og síðar valdatöku Saddams Husseins. Og ennþá spilar hún.
Meðan ógnarstjórn Saddams Husseins var hvað verst, spilaði íraska Sinfónían Schubert. Fól það í sér einhverja réttlætingu á stjórnarfarinu í írak? íttum við að hugsa: „Hér eru menn að spila á selló – varla er þessi Saddam þá alslæmur?“ Nei, það væri fráleitt!
Á öllum tímum reynir fólk að laga sig að ríkjandi aðstæðum. Listamenn, íþróttafólk, menntamenn o.fl. halda áfram að vinna sín störf hvort sem gullöld ríkir eða upplausnarástand. Það er afar ósanngjarnt að líta svo á að með því sé þetta fólk að votta ríkjandi þjóðfélagsástandi stuðning sinn.
Teljum við t.d. að sérhver rithöfundur sem ekki var beinlínis fangelsaður pólitískur andófsmaður, allt afreksfólkið í íþróttum eða frábæra listafólkið sem lönd Austur-Evrópu gátu státað af í valdatíð kommúnista, hafi falið í sér einhvers konar réttlætingu á stjórnarfarinu í þeim löndum? Getur tónlistarmaður í einræðisríki ekki stundað list sína án þess að vera rós í hnappagat valdsmanna? Er það að leggjast í eymd og volæða eina viðurkennda hegðun fólks sem býr við slæmar aðstæður?
* Sinfóníuhljómsveit íraks var engin réttlæting á stjórnarfari Saddams Husseins þegar hún lék í skugga einræðisstjórnar hans fyrir 15 árum.
* Og Sinfóníuhljómsveit íraks er heldur engin réttlæting á núverandi stjórnvöldum þegar hún leikur í skugga hernámsins í dag.
Hvort mönnum finnist tónlistarmenn í lífshættu í Bagdað vera hetjur er svo allt önnur og óskyld umræða.