Skyggnigáfa I have not been

Skyggnigáfa

I have not been in a battle; not near one, nor heard one from afar, nor seen the aftermath. I have read about battles, of course, have talked about battles, have been lectured about battles. But I have never been in a battle. And I grow increasingly convinced that I have very little idea of what a battle can be like.
– John Keegan í­ inngangi bókar sinnar „The Face of Battle“, einnar áhrifamestu bókar um hernaðarsögu sem út hefur komið.

Á gamlárskvöld settist ég niður með afa og ömmu og náði í­ fyrsta sinn að spyrja þau út í­ mál sem mig hefur lengi langað að fræðast um – skyggnigáfu langafa. Þannig er mál með vexti að Þórður langafi, sem mig rétt rámar í­ frá því­ að ég var smágrí­slingur, var skyggn. Hann var þó enginn spí­ritisti eða miðill – virtist ekki hafa haft neina trú á slí­ku. Hins vegar sá hann löngu látið fólk og varð vitni að atburðum og gat jafnvel haft áhrif á þá.

Ég hef svo sem heyrt áður sögur af langafa, en þær flestar í­ hálfkveðnum ví­sum frá ættingjum, en ekki beint frá afa og ömmu. Eina sagan sem ég heyrt almennilega fjallaði um það þegar langafi var „viðstaddur“ fæðingu mí­na og greip inn í­ þegar honum þótti fæðingarlæknirinn ætla að standa vitlaust að málum. (Langamma var ljósmóðir, þannig að hann þekkti talsvert til málanna.)

Ekki gat langafi þó alltaf gripið inn í­ atburðarásina með beinum hætti, heldur var hann oftar en ekki óvirkur áhorfandi. Þannig brást það ekki ef skip fórust fyrir vestan og menn með þeim, að hann lét öllum illum látum í­ svefni, bylti sér og braust um. Á öðrum tilvikum gat hann þó flutt betri fréttir, t.d. þegar skriða féll á rútu sem afi og hópur í­þróttamanna sem hann var fararstjóri hjá voru í­ á leiðinni til Bolungarví­kur. Tveir menn létust í­ því­ slysi, en fyrstu fréttir sem bárust til ísafjarðar hermdu að allir hefðu farist. Þá var langafi sallarólegur og ví­saði fréttunum á bug – hann hafði nefnilega séð slysið.

Hvers vegna er ég að lepja upp þessar sögur af langafa þegar ég neita að trúa á drauga, álfa og yfirskilvitleg fyrirbæri? Ég veit það hreinlega ekki. Kannski vegna þess að það væri ennþá meiri þröngsýni að neita að hlusta á svona frásagnir? Kannski vegna þess að hvað sem öðru lí­ður þá er þetta hluti af fjölskyldusögunni – frásagnir sem lifað hafa með mí­nu fólki um áratuga skeið og eiga að gera það áfram? Á það minnsta ætla ég að’ standa við það loforð mitt að safna saman sögunum af Þórði og skrásetja þær. Þannig er bara gert…