Stefán eignast skó…
Hmmm… er þetta of slappt nafn á bloggfærslu? Ég minni nú á að ein bókin í bókaflokknum um Óla Alexander fílí-bomm-bomm-bomm hét „Óli Alexander eignast skyrtu“ – ekki er það mikið merkilegra en skókaup.
Nema hvað, í gær keypti ég mér skó í versluninni „Bónus skóm“ á Hverfisgötunni. Þar með lauk ævi gömlu Ecco-skónna minna sem ég hef átt í a.m.k. fjögur ár. Ekki dónaleg ending það fyrir mann með hálfónýtar lappir.
En talandi um góða endingu á skóm, þá er ég búinn að eiga sömu spariskó í rúm ellefu ár – en þá stal ég þeim frá föður Skarphéðins bekkjarfélaga míns. (Er ég kannski búinn að blogga áður um þessa sögu? Tja, það skiptir þá varla miklu máli.)
Sagan hefst haustið 1991, þegar ég var busakríli í MR. Skarphéðinn bauð í partý fyrir eitthvert skólaballið og var eðlilega mikill spenningur. Ég fór í skaplegri fötin, þar á meðal rústrauðan bleiser-jakka sem tilheyrir glæstum hópi ljótra fata sem ég hef átt og gengið í. Og að sjálfsögðu fór ég í nýlegu spariskónna sem ég hafði keypt fyrir slikk í skóbúðinni sem var við hliðina á Alþingishúsinu. Á þessari múnderingu tölti ég svo heim til Skabba, væntanlega með þrjár dósir af Egils gulli í farteskinu. (Maður þurfti ekki alveg jafn mikið magn af bjór til að detta í það í þá daga.)
Partýið var tíðindalítið. Líklega hafa menn reynt að hella einhverjum bjór ofan í bekkjartrúðinn Barða, sem þá var ekki orðinn frægur músíkant í Bang Gang heldur nördaðist við að taka upp hljóðsnældur í svefnherberginu sínu við annan mann í dúetnum Opp jors – sem samdi nokkur þokkaleg lög en gekk aðallega út á aulahúmor. Voru einhverjir aðrir frægir í bekknum? Nei, ekki svo ég muni…
Svo lýkur partýinu og allir skrölta út í leigubíl eða strætó og halda á ball. Ég fer í nýju skóna, sem eru ennþá jafn óþægilegir og ótilgengnir.
Daginn eftir er Skarphéðinn fokillur í skólanum. „Pabbi varð alveg brjálaður í morgun. Einhver tók glænýju og rándýru skóna hans og skildi eftir larfa!“ – sagði hann og varði svo næstu dögum í að þýfga fólk á förnum vegi um fínu spariskóna sem karl faðir hans heimtaði aftur. – Ég spáði ekkert meira í þessu en skildi Skabba og pabba hans ósköp vel, það er ferlega svekkjandi að týna nýjum fötum.
Síðar fór litlu vísbendingarnar hins vegar að hrannast upp. Mamma spurði einn daginn: „Hvaða spariskór eru nú þetta? Stebbi, varstu nokkuð að fá þér nýja skó?“ Á kjölfarið afréð ég að spyrja Skarphéðinn eins og í framhjáhlaupi: „Hvernig var það – þessir larfar sem skóþjófurinn illræmdi skildi eftir, voru það einhverjar gúmmítúttur eða strigaskóræflar?“ – „Nei“, svaraði Skabbi, „þetta voru einhverjir ódýrir svartir skór, hálfgert drasl! Pabbi er ennþá súr, en hann er búinn að kaupa sér nýja skó.“
Hvað gerir 16 ára strákur með fuglshjarta? Segir hann kumpánalega við sessunaut sinn einn daginn: „Ha, veistu hvað? Það var ég sem stal skónum hans pabba þíns! Ég skal skila þeim aftur og taka mína í staðinn. Hann verður eflaust glaður að eiga núna TVÖ pör af spariskóm…“ – Ekki mjög líklegt. Þess í stað þagði ég þunnu hljóði, reyndi að láta lítið fyrir skónum mínum fara á næsta skólaballi og mætti í hvunndagshnöllunum næst þegar Skarphéðinn bauð í partý.
En skórnir standa fyrir sínu, enn þann dag í dag.
Jamm