Eitt fyrsta verk mitt í alvöru félagsstörfum var að skrá fréttabréf hjá Póstinum. Það fólst í því að greidd var tiltekin upphæð fyrir að skrásetja nafn blaðs eða tímarits, en í staðinn fékkst afsláttur í hvert sinn sem sent var út. Afslátturinn var svo ríflegur að blöð voru 1-2 skipti að ná upp í skrásetningargjaldið.
Þessi afsláttur bættist ofan á þá lækkun á taxtanum sem fékkst ef send voru yfir 100 eintök eða þar um bil. Það var einfaldlega mjög hagkvæmt að senda út lítil fréttabréf fyrir 15 árum síðan. Til marks um það reyndu flest félagasamtök að halda úti fréttabréfi, sem gátu jafnvel komið út mörgum sinnum á ári – og í tengslum við alla helstu atburði í félagsstarfinu.
Möguleikinn á að koma boðum til fólks í gegnum póstþjónustuna skipti miklu máli fyrir frjáls félagasamtök hér á landi. Sá tími er hins vegar liðinn. Á dag eru póstburðargjöld sligandi og félög reyna í lengstu lög að koma sér hjá slíkum sendingum.
Pósturinn okrar á útsendingum af þessu tagi. Magnafslættir eru nánast engir, þótt erfitt sé að hugsa sér þau svið þjónustu þar sem slíkir afslættir ættu betur við. Og ef útsendingarefnið er þyngra en létt sendibréf er kostnaðurinn orðinn geggjaður.
Þess vegna fara fleiri og fleiri félög þá leið að sniðganga Póstinn – eða reyna amk að halda útsenda upplaginu í lágmarki.
Við í SHA ætlum annað kvöld að pakka Dagfara, ferskum úr prentsmiðjunni (7,9,13) og í kjölfarið ætlum við að reyna að koma eins stórum hluta upplagsins (amk hér á höfuðborgarsvæðinu) á sjálfboðaliða sem rölta með blöðin. (Að þetta skuli borga sig segir allt um hvað verðskráin hjá Póstinum er galin.)
Það verður byrjað kl. 19:30 í Friðarhúsi – og væntanlega verður hægt að byrja að sækja blöð þangað klukkutíma síðar. Þurfa lesendur síðunnar ekki á kvöldrúnti að halda? Þá er bara að droppa við – eða senda póst á sha@fridur.is
Jamm.
# # # # # # # # # # # # #
Á laugardagsmorguninn var ég staddur í bókabúð og sá þar bókarekka þar sem allar bækur voru með sérstaka tilboðsmiða um niðursett verð. Amk. ein bókanna hafði komið í búðir á fimmtudeginum – það þýðir að upprunalega verðið hafði staðið í mesta lagi í einn og hálfan dag.
Halda menn virkilega að viðskiptavinir séu algjör fífl?