Bommsarabomms
Sem kunnugt er bloggar besti og frægasti bloggari landsins ekki um pólitík. Hvers vegna? Er það vegna þess að ég sé að reyna að hefja mig yfir argaþras stjórnmálanna og verða þannig betra sameiningartákn fyrir mína kynslóð og raunar internetsamfélagið allt? – Nei, ég get einfaldlega rövlað um pólitík á Múrnum og Friðnum og nenni því ekki að gera það hér líka.
Hins vegar má birta á þessari síðu tilvitnanir í snillinga sem tjá sig um pólitík, einkum ef í því felast sagnfræðileg kjúríosítet. Þessa dagana er ég t.d. að berja mig í gegnum gamla úrklippusafn Rafmagnsveitunnar frá áttunda og níunda áratugnum. Það er æðislega gaman. Alltaf skemmtilegt þegar maður getur grúskað í gömlum dagblöðum og kallað það hluta af vinnunni!
Meðal þess sem gaman hefur verið að lesa um eru deilurnar um Kröflu. Þar á meðal eru skrif Magnúsar Kjartanssonar sem gátu verið hreinasta snilld! Sérstaklega var fyndið þegar Gunnar Thoroddsen iðnaðarráðherra fékk bandaríska konu með „yfirskilvitlega hæfileika“ til að koma til Íslands og leita að gufu á Kröflusvæðinu vopnuð kvisti og miðilsgáfu! (Ég held að meira að segja Valgerður Sverrisdóttir myndi ekki verða svona örvæntingarfull.)
Nema hvað, Magnús skrifaði að sjálfsögðu drepfyndinn pistil um vúdú-galdra ráðherrans. Mogginn svaraði og skammaði Magnús fyrir að skilja ekki hugtakið stærðarhagkvæmni. Magnús hakkaði svo Moggagreinina í spað í greininni „Bommsarabomms“. Þar þróar hann kenninguna um hagkvæmni stærðarinnar út frá Parkinsonslögmálinu og víkur svo að hugmyndum um stórvirkjanir fyrir austan:
Önnur hugmynd af þessu tagi var hugmyndin um Austurlandsvirkjun, en forsenda hennar var að tengja saman öll vatnsföll á Norðurlandi austanverðu og Austfjörðum og láta þau falla í einn voldugan meginstraum. Þegar ég heyrði fyrst um þessa hugmynd kom upp í huga mínum einkennileg þula sem ég lærði ungur og var eitthvað á þessa leið: Ef öll fjöll yrðu að einu fjalli og allir steinar að einum steini og öll vötn að einu vatni og allir menn að einum manni, og ef hinn ofurstóri maður bæri hinn ofurstóra stein upp á hið ofurstóra fjall og henti honum niður á hið ofurstóra vatn, þá yrði mikið bommsarabomms.
Af hverju get ég ekki verið jafngóður penni, fyndinn og sniðugur og Magnús Kjartansson? Eða öllu heldur af hverju eru ENGIR svona pistlahöfundar til lengur hér á landi, sem flengja andstæðinga á jafnglæsilegan hátt? Þá gæti maður lesið greinar þar sem rök andstæðinganna eru dregin fram, þau afgreidd og málið klárað með glæsilegu rothöggi í lokin:
Þessi fáu orð eru skrifuð til þess að vara ritstjóra Morgunblaðsins við því að fara með tölur. Þeim er miklu nær að halda inn á þá braut sem Gunnar Thoroddsen hefur markað með hingaðköllun seiðkonunnar frá Flórída. Annar ritstjóri blaðsins er sem kunnugt er heimsþekkt ljóðskáld og færi vel á að næsta bók hans hefði að geyma galdraljóð og særingaþulur. Gunnar Thoroddsen væri vís til að semja lög við þann kveðskap og leika þau á það kirkjuorgel sem næst er Kröflu. Og hver veit nema hinn ritstjóri Morgunblaðsins kunni að syngja.