Egill Helgason sakar andstæðinga stríðsreksturs Bandaríkjamanna í írak um Þórðargleði, sem komi fram í því að þeir óski almennum borgurum í landinu alls hins versta – væntanlega til að geta hælst um og sagt: „þessu spáði ég!“
Þessi túlkun er bæði röng og smekklaus.
Ég spyr á móti – var það þá Þórðargleði þegar vestrænir gagnrýnendur Sovétskipulagsins hömruðu á fregnum af fólki í fangabúðum? Óskuðu þeir kannski að íbúar Sovétríkjanna þjáðust sem mest til að geta sjálfir hælst um á Varðbergsfundum? Var það kannski til marks um kvalalosta þessa fólks að það skyldi ekki hafa hrósað Brésneff fyrir að fangelsa þó ekki jafnmarga og Stalín?
Er það Þórðargleði þegar Egill Helgason hampar þeim bókum sem halda fram hæstum tölum yfir fórnarlömb Stalíns og Maós? Vill Egill kannski að sem flestir hafi þjáðst, til að hann geti fyllst réttlátri reiði? Vonar hann kannski í hjarta sínu að Chavez forseti í Venesúela láti skjóta á fólkið á götunum?
Nei, þannig getur það fjandakornið ekki verið.
Að gagnrýnendur Bandaríkjastjórnar hamri sérstaklega á fregnum um glæpi hennar felur að sjálfsögðu ekki í sér neina ósk um að fórnarlömbunum fjölgi. Það er álíka fráleitt og að saka Morgunblaðið um að hafa hatað sovésku þjóðina allt Kalda stríðið.
# # # # # # # # # # # # #
Á dag var ég til útvarps. Umræðuefnið var Jóhannes Kepler. Það var ekki alveg jafnlíflegt og fyrir hálfum mánuði þegar umfjöllunarefnið var Tycho Brahe – enda Kepler ekki jafnskemmtilegur. Vona þó að fólk hafi haft eitthvað gagn og gaman af.
# # # # # # # # # # # # #
Sá Framara gera jafntefli við Leikni í fúlum haustleik í Egilshöll, 1:1. Fór beint þaðan og sá okkur vinna Stjörnuna í tvöfaldri framlengingu. Erum komnir í undanúrslit – úr þessu er ekkert vit í öðru en að fá Val í úrslitum og smekkfylla Höllina.