„Þú ert svo neikvæður Stefán – það er um að gera að reyna frekar að vera dálítið bjartsýnn!“
– Eitthvað í þessa veru sagði Jónína Bjartmarz við mig í spjallþætti fyrir þremur árum síðan. Við vorum að tala um írak, þar sem ég sagðist óttast að við þyrftum að horfa fram á margra ára borgarastyrjöld og hjaðningarvíg í landinu.
Þetta fannst þingkonu Framsóknarflokksins óþarfa neikvæðni. Það væri nefnilega svo margt sem benti til að allt væri að falla í ljúfa löð. Einhverjar kosningarnar um stjórnarskrá eða stjórnlagaþing eða þing til að samþykkja reglur um stjórnlagaþing… voru nýafstaðnar. Nýlega var búið að tilkynna um að tekist hefði að sprengja í loft upp hæstráðendur númer þrjú og fjögur (eða eitthvað álíka) í al-Kaída og e-r skoðanakananir sýndu smáhækkun væntingavísitölunnar.
Jónína var bara hress. Ég var neikvæði gaurinn.
Auðvitað er það miklu betra fyrir sálartetrið að vera hressa manneskjan heldur en að vera neikvæði gaurinn. Ef ég hefði hlaupið út í garð og puðrað upp rakettum í hvert sinn sem fréttir hafa borist af því á síðustu árum að allt væri að smella saman í írak eða Afganistan – þá væri í nógu að snúast.
En ég er viss um að Jónína Bjartmarz er ekki síður bjartsýn og í gúddí fílíng núna en fyrir þremur árum.