Það var gaman að koma heim af fundi í kvöld og sjá að Framstelpurnar unnu Stjörnuna og eru komnar í efsta sætið.
Ég hef áður lýst endurreisn kvennahandboltans í Fram sem öskubuskuævintýri. Liðið sem nú trónir á toppnum er að stofninum til skipað sömu stelpum og maður var að mæta á leiki með fyrir nokkrum árum síðan, vitandi að þær ættu aldrei séns og myndu tapa með miklum mun gegn stóru liðunum.
Þá voru þær 17-18 ára og liðið vantaði algjörlega kjölfestur – reynslubolta sem kunnu að vinna leiki.
Glæsileg blanda af sterku unglingastarfi og metnaðarfullri stjórn, sem er reiðubúin til að leggja í kostnað til að styrkja liðið þar sem uppá vantar, er lykillinn að þessari velgengni. Handboltadeildin hjá Fram er einvörðungu skipuð ungum körlum – sem seint myndu sjást á málþingum um kynjafræði, en það breytir því ekki að fyrir þeim er það jafnmikilvægt að kvennaliðið sé að bítast um tiltlana og karlaliðið. Reyndar gera þeir stundum (í þröngum hópi) grín að kollegum sínum í fótboltanum, sem ekki hafi manndóm í sér til að halda úti meistaraflokki kvenna…
Það er langt til vors – og margir leikir eftir á Íslandsmótinu – en ef stelpunum tækist að innbyrða Íslandsmeistaratil á 100 ára afmæli Fram, þá væri varla hægt að hugsa sér betri afmælisgjöf.
# # # # # # # # # # # # #
Og talandi um Fram… hún var hálfkrúttleg færslan sem ég rakst á í fundargerðarbók stjórnar Fram frá árinu 1957 í morgun. Þar var tekið fyrir erindi handboltanefndarinnar sem kvartaði undan tækjaskorti. Eftir nokkrar umræður var ákveðið að taka jákvætt í erindið… og heimila kaup á tveimur handboltum!
# # # # # # # # # # # # #
Er barnið efni í lítinn ofvita? Steinunn sótti Ólínu á leikskólann fyrr í vikunni og kom um það leyti sem verið var að gefa hópnum að borða í drekkutímanum. Kennari af annarri deild var að sjá um verkið í afleysingum – og mundi skyndilega að einhver í hópnum átti að fá soya-mjólk í staðinn fyrir beljumjólkina úr jólasveinafernunum – en kom því ekki fyrir sig hver það væri…
„Ólína, hver á að drekka þessa mjólk?“ – spurði ráðagóði leikskólakennarinn? „Sigga (nafni breytt)“ – svaraði barnið um hæl. Og þar með var búið að leysa úr því vandamáli.
Það verður ekki af gríslingnum skafið – að hún man svona hluti.