Það er óskaplega skemmtilegt að geta varið megnið af sínum vinnutíma um nokkurra mánaða skeið til þess að lesa allt sem tengist eftirlætis íþróttafélaginu manns. Það eru forréttindi að geta drukkið í sig söguna og fengið tilfinningu fyrir þeim viðfangsefnum sem fólkið í félaginu var að sinna yfir margra áratuga tímabil – og reyna að draga upp einhverja heildarmynd.
Sumt er þó ekki alveg jafngaman að lesa um.
Það er með ólíkindum hvað karlarnir sem stýrðu knattspyrnudeildinni í Fram gátu verið miklir tréhestar þegar kom að kvennafótboltanum. Félagið hafði alla möguleika á að verða stórveldi í þeirri grein – en henti þeim frá sér.
Saga nútímakvennaknattspyrnu á Íslandi hefst í upphafi áttunda áratugarins. Handboltakonur úr ýmsum félögum höfðu dundað við fótbolta sem hliðargrein, einkum yfir sumartímann eftir að útihandknattleikurinn var nánast dottinn upp fyrir. Þetta þróaðist út í formlega keppni, í samræmi við það sem var að gerast í nágrannalöndunum á nokkurn veginn sama tíma. (Það er nefnilega goðsögn að kvennaknattspyrna sé ung á Íslandi – þvert á móti voru Íslendingar mjög fljótir til. Fyrsta Íslandsmótið utanhúss er 1972.
Fram var með hörkuíþróttakonur í handboltanum og þess vegna hlaut liðið að ná góðum árangri í fyrstu Íslandsmótunum. Þegar kvennafótboltinn fór að verða sjálfstæðari grein, þurfti hins vegar meira til en handboltaflokk sem sparkaði tuðru yfir hásumarið. Það þurfti að búa til alvöru umhverfi utan um kvennaflokkana – en þar klikkuðu Framararnir. Þeir leyfðu meistaraflokknum að drabbast niður, með þeim afleiðingum að Breiðablik gleypti bestu bitana og lagði grunn að stórveldi sínu.
Eftir að hafa lesið fundargerðir frá aðalfundum og stjórnarfundum knattspyrnudeildar frá öllum áttunda áratugnum, sætir furðu hversu hljótt er um kvennaliðið. Þær eru jafnvel ekki nefndar á nafn í ársskýrslum þar sem samviskusamlega er farið yfir árangur 5.flokks-B í Reykjavíkurmótum.
Þegar stofnað er til æfinga í stúlknaflokki um 1974, er það ekki gert að frumkvæði knattspyrnudeildarinnar – heldur fyrir forgöngu formanns aðalstjórnar, Alfreðs Þorsteinssonar. Þegar Alfreð hafði ýtt verkefninu úr höfn og falið Sigmundi Ó. Steinarssyni að sjá um þjálfun stelpnanna til bráðabirgða hundskast knattpsyrnudeildin til að taka við verkefninu með hundshaus.
En svo fór sem fór…