Ég las eiginlega yfir mig í nóvember, þökk sé dómnefndarsetunni. Fyrir vikið hefur mér ekki gengið vel að hafa mig út í yndislestur – annan en þann er varðar sögu Fram.
Á þessu eru þó undantekningar. Ég pantaði mér Fjölmiðla-bók Ólafs Teits Guðnasonar af net-verslun Andríkis og hef verið að grípa í hana upp á síðkastið. Nú les ég ekki Viðskiptablaðið nema endrum og sinnum og þess vegna er gaman að fá heils árs skammt – beint í æð ef svo má segja. Það er eftirsjá af þessum skrifum ÓTG.
# # # # # # # # # # # # #
Og úr því að ég er á annað borð kominn í þann gírinn að hrósa mönnum sem ég er annars ekki alltaf sammála – þá vil ég benda á pistil Guðmundar Andra Thorssonar í Fréttablaðinu í dag. Skynsamlegar pælingar um mál sem flestir fjalla um af lítilli skynsemi.