Loksins viðurkenning! Aldrei hef ég

Loksins viðurkenning!

Aldrei hef ég nú verið duglegur við að halda upp á viðurkenningarskjöl af ýmsu tagi sem mér hafa áskotnast á lí­fsleiðinni. Á sí­num tí­ma hrúgaðist þetta upp hjá manni, enda virðist grunnskólinn allur ganga út á svona tildur: viðurkenning fyrir að eiga reiðhjól með réttum öryggisbúnaði, viðurkenning fyrir að vera 9 ára gamall og samt ekki byrjaður að reykja, viðurkenning fyrir að taka þátt í­ samnorræna lesum-eina-bók-á-viku átakins,… gott ef það var ekki lí­ka afhent viðurkenningarskjal fyrir að standast berklaprófið?

Á gær fékk ég hins vegar viðurkenningarskjal sem mér þykir pí­nulí­tið vænt um og er jafnvel að spá í­ að setja upp einhvers staðar. Þetta var skjal frá Blóðbankanum þar sem vottað er að ég er búinn að gefa blóð 25 sinnum. Að þessu tilefni skal Blóðbankinn plöggaður:

Mér finnst það segja mikið um samfélög hvernig þeim gengur að reka blóðbanka. Langbest hlýtur að teljast þegar svo margir gefa blóð, endurgjaldslaust, að blóðbankar þurfi nánast ekkert að auglýsa og geti látið langan tí­ma lí­ða á milli þess sem tappað er af hverjum og einum. Lengi vel voru Íslendingar svo duglegir við þetta að Blóðbankinn safnað miklum umframbirgðum af blóði, sem hægt var að nýta til blóðvökvaframleiðslu sem aftur var seldur til Evrópu fyrir mikið fé. Það fé var svo aftur nýtt til tækjakaupa og fræðslustarfs.

Því­ miður virðist nýliðunin í­ hópi blóðgjafa ekki vera mjög góð og því­ er það stöðugt algengara að senda þurfi út fréttatilkynningar eða auglýsingar þegar birgðastaðan er orðin skuggaleg. Á dag fer því­ fjarri að við getum sent blóð úr landi.

Vonandi mun aldrei þurfa til þess að koma að Blóðbankinn neyðist til að byrja að greiða fyrir blóðgjafir. Því­ fylgja ýmsar hættur, auk þess sem vart er hægt að hugsa sér viðbjóðslegri birtingarmynd fátæktar en það þegar fátækt fólk neyðist til að selja eigið blóð til að skrimta.

Hér er ég samt örugglega á öndverðum meiði við Pétur Blöndal. Hann getur eflaust sett á langa fyrirlestra um „blóð án hirðis“ og hvernig menn hljóti að fara verr með blóð sem ekkert kostar en blóð sem er selt dýrum dómum. – Kannski Pétur gæti næst reynt að stela Blóðbankanum. Það ætti að vera uaðveldara en að ræna sparisjóðum…

* * *

Spurningakeppnin í­ gær var þokkaleg. Norðfirðingar voru ekki nógu góðir í­ hraðaspurningunum, sem er sama vandamál og þau áttu við að strí­ða í­ fyrrra. Þetta er sönnun þess að þau æfa ekki nóg. Með jafnstí­fri þjálfun og stóru Reykjaví­kurskólarnir ganga í­ gegnum hefði þetta lið getað orðið fantagott. Menntaskólinn við Sund stóð sig vel. Laugarvatn og Bændaskólinn á Hvanneyri fóru lí­ka í­ 2. umferð. Hvanneyri bar sigurorð af Fjölbraut í­ Garðabæ. Þjálfari FG var Stefán Bogi, sem keppti á sí­num tí­ma fyrir Menntaskólann á Egilsstöðum í­ keppninni og fór alla leið í­ undanúrslit. Hann var ekki bara klókur spurningagarpur heldur mjög góður ræðumaður á sí­num tí­ma.

Annars hef ég ekki fleiri orð um þennan nördaskap, heldur læt nægja að þakka læðunni hlýleg orð í­ minn garð…