Luton fékk á baukinn á Anfield í kvöld – en stuðningsmönnunum er sama. Við grátum alla leið í bankann.
Jafnvel þótt við hefðum unnið óvæntan sigur og slegið Liverpool út úr keppninni, þá hefðu það verið smámunir miðað við aðalfrétt dagsins: fjárhaldsmaður félagsins í greiðslustöðvuninni hefur fallist á tilboð 2020-hópsins sem boðið hefur í félagið.
Stuðningsmenn liðsins voru einhuga að baki tilboðs 2020-hópsins, sem inniheldur gamla stuðningsmenn og jafnvel leikmenn – t.d. er Steve gamli Foster (maðurinn með ennisbandið) í hópnum.
Þessi eigendahópur lofar ekki gulli og grænum skógum. Þarna er enginn skrilljónamæringur sem heitir úrvalsdeildarsæti innan fárra ára. Við munum halda áfram að vera klúbbur í kröggum sem þarf í sífellu að selja bestu mennina. Á hinn bóginn virðast þessir væntanlegu eigendur ekki vera braskarar sem líta á félagið sem lykil að skyndigróða – t.d. í tengslum við lóðabrask.
Svo virðist sem það ætli að takast að forða Luton Town frá gjaldþroti. Á ljósi þeirra fregna væri mér sama þótt Liverpool hefði skorað tuttugu mörk í kvöld.