Eina ferðina enn er farið að þrefa um Múhameðsmyndirnar og viðbrögð múslimaheimsins við þeim. Þetta ætlar að verða lífseigari umræða en það hvort hindúar væru óvenjulega hörundsár hópur eftir að Dauði prinsessu var sýndur fyrir mörgum árum síðan.
Óháð því hvað manni finnst vera rétt eða rangt í þessari umræðu – hvort maður hefur einhverja samúð með hörundsárum múslimum eða telji gremju þeirra fáránlega – þá er eitthvað svo kjánalegt við að Íslendingar setjist í dómarasæti í þessu máli.
Mér er nefnilega til efs að til sé hörundsárari þjóð.
Þegar einhver útlendingurinn álpast til að kalla Leif heppna Norðmann – þá er utanríkisþjónustan virkjuð í að koma leiðréttingu á framfæri. Þegar Norðmenn eigna sér Snorra Sturluson – íhugum við að slíta stjórnmálasambandi.
Danskir blaðamenn sem voga sér að segja um íslensku fjármálafyrirtækin það sama og við slúðrum um í heitu pottunum – eru bara komplexeraðir og öfundsjúkir fyrrum nýlenduherrar.
Þegar amerískir mafíósar sænga hjá glyðrum í íslenskum flugfreyjubúningum í sjónvarpsþáttaseríu – þá verða allir óskaplega móðgaðir.
Kvikmyndaleikstjóri sem skilgreindur hefur verið sem „Íslandsvinur“ gantast í erlendu sjónvarpi með að íslenskar konur séu drykkfelldar og lauslátar – og það dugar okkur í fjóra spjallþætti um hvort Flugleiðir beri ábyrgð á því að ímynd þjóðarinnar sé í molum í útlöndum.
Erlendur háskólaprófessor skrifar grein í stúdentablað þar sem hann gagnrýnir íraksstríðið undir rós, með því að „hvetja“ Bush forseta til að ráðast á Ísland. Tugir nöttara senda honum dónaleg skeyti þar sem honum er sagt til syndanna.
O.s.frv. – o.s.frv.
Hvernig á þessi þjóð að geta tjáð sig af einhverju viti um það hvað séu rétt eða röng viðbrögð við illmælgi eða afbökunum útlendinga?