Fyrir viku síðan var ég í spjalli í þættinum Vítt og breitt á Rás 1, þar sem umræðuefnið var franski stærðfræðingurinn/stjörnufræðingurinn Le Verrier. Hann er vitaskuld þekktastur fyrir að hafa fundið reikistjörnuna Neptúnus með stærðfræðiútreikningum einum saman.
Ég lagði þó meiri áherslu á annað á ferli hans – nefnilega leitina að „týndu plánetunni“ Vúlkan.
Le Verrier fann Neptúnus með því að beita Newtonskri aflfræði og reikna þannig út nýja reikistjörnu, byggt á skekkjunni í göngu Úranusar. Hann áleit því að hægt væri að beita sömu aðferð til að skýra skekkjuna í göngu Merkúr.
Á dag höfum við afstæðiskenningu Einsteins til að útskýra frávikið varðandi Merkúr – en miðað við forsendur Le Verrier lá beint við að álykta að „týnda plánetan“ Vúlkan væri milli Sólar og Merkúrs.
Og það sem meira var – eftir að Le Verrier spáði fyrir um mögulega legu reikistjörnunnar komu fram menn sem töldu sig hafa séð hana.
Fyrir vikið var Vúlkan talin raunveruleg pláneta um alllangt skeið – einkum í frönskumælandi löndum. Á dag er hún hins vegar „óþörf“ og því allir hættir að leita.
Það er nákvæmlega þetta sem mér finnst skemmtilegast í vísindasögunni!
Mér finnst ágætt að lesa um það hvernig stóru nöfnin í vísindaheiminum komust að því sem við teljum í dag sannindi – en hitt er miklu skemmtilegra, kenningarnar sem menn aðhylltust áður en reyndust ekki á rökum reistar.
Það er fínt að lesa um fund Úranusar og Neptúnusar – en leitin að Ceres og Vúlkan eru þó óendanlega miklu skemmtilegri viðfangsefni.
Að þessum orðum rituðum sný ég mér aftur að því að undirbúa fyrirlestur morgundagsins í vísindasögunámskeiðinu í Háskólanum…