írið 1980 varð Ada Mills frá Arkansas að neðanmálsgrein í sögu bandarískra stjórnmála – sem dýrasti kjörmaður allra tíma.
Hún var eini kjörmaðurinn sem John Connally hlaut í baráttunni um útnefningu Repúblikana. Framboð þessa fyrrum ríkisstjóra í Texas (og sessunauts Kennedys í bílferðinni örlagaríku í Dallas) hafði þó alls ekki verið talið vonlaust í fyrstu. Þvert á móti var hann talinn eiga góða möguleika á útnefningunni í baráttu við Reagan.
Mistök Connallys fólust í því að hefja strax auglýsingaherferð á landsvísu með miklum tilkostnaði – hann hafði eytt á þrettándu milljón Bandaríkjadala áður en framboðið hrundi til grunna eftir forkosningarnar í Suður-Karólínu. George Bush eldri hafði hins vegar vit á að einbeita sér að fyrstu ríkjunum – s.s. Iowa – og kom sér þannig í þá stöðu að verða helsti andstæðingur Reagans.
Þessi atburðarás minnir nokkuð á hrakfarir Rudolphs Giuliani, sem „gleymdi“ að vera með frá byrjun.
Giuliani mun hafa eytt u.þ.b. fjórum sinnum hærri fjárhæð en Connelly. Hins vegar ber heimildum ekki saman um hvort hann hafi uppskorið einn kjörmann eða engan. Hafi hann náð kjörmanninum, þá er Ada Mills búin að tapa titlinum sínum sem dýrasti kjörmaður sögunnar.