Ég held að knattspyrnuáhugamenn geri sér almennt ekki grein fyrir því hversu mikið þeir eiga Víði Sigurðssyni að þakka. Bókaflokkur hans um íslenska knattspyrnu er einstök heimildaútgáfa og þrekvirki í ekki stærra samfélagi.
Íslenskur fótbolti er frábærlega vel dekkaður sagnfræðilega og það er ekki hvað síst Víði að þakka.
En það hversu vel knattspyrnumenn eru staddir leiðir hugann að því hvernig ástandið er hjá öðrum íþróttagreinum. Sumar virðast í harlagóðum málum – s.s. hestaíþróttir, glíma o.fl. Aðrar eru úti á þekju – s.s. þjóðarsportið handbolti.
Segjum sem svo að mig vanti að vita hvaða lið léku til úrslita í bikarkeppni HSÁ 1979 – karla- og kvennaflokki? Hvert fer ég þá, hvar á að leita?
Fyrst var keppt á Íslandsmóti í handknattleik árið 1940. Handboltinn er með öðrum orðum kominn á eftirlaunaaldur – en hvað hefur verið skrifað um hann? Andskotans ekkert!
Jú, það er hægt að grafa upp rit um landsliðið. Og HSÁ stendur víst fyrir sagnritunarverkefni um sögu landsliðsins. En hvað með deildarkeppnina hérna heima? Hvað með úrslitabanka þar sem hægt er að finna lokastöðu allra Íslandsmóta í meistaraflokki – lista yfir keppnislið o.þ.h.? Engu slíku er til að dreifa.
Það er ekki einu sinni síða á Wikipediunni með lista yfir Íslandsmeistaralið…
Hvað veldur þessu sinnuleysi? Hér er augljóslega verk að vinna.