Eitt af því sem fer ósegjanlega í taugarnar á mér, er þegar fólk slengir því fram umhugsunarlaust að hitt og þetta í íslensku samfélagi hljóti að vera einstakt í heiminum. Ef sagt er frá grunnskóla úti á landi með tvo nemendur – virðist þykja sjálfsagt að hnýta því við að þetta sér „líklega minnsti skóli í heimi“ o.s.frv.
Slíkar einkunnir þola sjaldnast nánari athugun.
Það pirrar mig þess vegna gríðarlega í öllum umræðum um gjaldmiðilsmál Íslendinga (krónur/Evrur/svissneskir frankar…) þegar því er í sífellu slengt fram að Íslendingar búi við „minnsta sjálfstæða myntkerfið“ eða hafi „minnsta sjálfstæða gjaldmiðil í heimi“.
Nú er þessi staðhæfing augljóslega röng – og er því til marks um annað tveggja: að þeir sem hafa hana eftir séu illa að sér eða að þeir séu svo hrokafullir að þeir neiti að viðurkenna tilvist fjölda ríkja og samfélaga.
Þegar talað er um stærð gjaldmiðils getur ekki verið átt við fjölda íbúa í heimalandi hans. Þá væri t.a.m. indónesíska rúpían „stærri“ en japanska jenið. (Reyndar væri íslenska krónan ekki einu sinni minnst samkvæmt þeirri skilgreiningu.)
Til að meta stærð gjaldmiðla hlýtur að vera horft til umfangs viðskipta með þá. Á Afríku er fjöldi sjálfstæðra gjaldmiðla og þótt flesti ríki álfunnar telji milljónir manna – mætti eflaust færa fyrir því rök að íslenska krónan sé „stærri“ en gjaldmiðlar furðufjölmennra ríkja. Á það minnsta geri ég ráð fyrir að krónan sé „stærri“ en púlan í Botswana. Á Botswana búa um 600 þúsund manns, sem hafa sjálfstæðan gjaldmiðill sem er með þeim sterkari á svæðinu.
Er meira að segja víst að krónan sé minnsti sjálfstæði gjaldmiðillinn í Evrópu? Er t.d. augljóst að levan í Moldavíu sé mikið stærri? Það er mér mjög til efs.
Nú er ég ekki að segja að það séu nein rök í umræðunni um evru-eða-ekki-evru að tína til dæmi um minni gjaldmiðla. En rétt skal vera rétt!