Nú eru einhverjir stjórnmálamenn í Evrópu farnir að kalla eftir því að þjóðir heims sniðgangi Ólympíuleikana í Kína. Það mun ekki ganga eftir.
Fjórar meiriháttar tilraunir hafa verið gerðar til að tala fyrir „hóp-skrópi“ á ÓL. Fyrst var það 1956, til að mótmæla þátttöku Sovétmanna svo skömmu eftir innrásina í Ungverjaland. Sviss, Holland og Franco-stjórnin á Spáni urðu við kallinu – aðrir ekki. Sú hugmynd virðist ekki einu sinni hafa hvarflað að Íslendingum að hætta við að senda Vilhjálm Einarsson til Melbourne vegna þessa.
1968 voru Ólympíuleikar í Mexíkóborg. Skömmu fyrir leikana slátruðu stjórnvöld í Mexíkó stúdentum, en enginn kippti sér sérstaklega upp við það. Reyndar virðast Mexíkóar hafa gert stúdentadráp að fastri hefð í aðdraganda stórra íþróttamóta þar í landi.
ítta árum síðar, í Montreal 1976 kom hins vegar til fjöldasniðgöngu. Flest ríki Afríku sunnan Sahara drógu sig úr keppni til að mótmæla þátttöku Nýsjálendinga, sem höfðu skömmu áður rofið samskiptabann við hvítu minnihlutastjórnina í Suður-Afríku. Afríkuþjóðir höfðu svo sem ekki rakað til sín verðlaunum á ÓL fram að þessu, en margt benti þó til að þær hefðu komið sterkar til leiks ´76. Á það minnsta náðu þær ágætum árangri fjórum árum síðar.
1980 voru ÓL í Moskvu og Carter-stjórnin hóf fyrir því mikinn áróður að ríki heims sætu heima vegna innrásar Sovétmanna í Afganistan. Nokkrir tugir landa hlýddu kallinu – en það blekkir þó að stór hluti þeirra voru smáríki sem ólíklegt má telja að hefðu tekið þátt hvort sem er. Nær öll bestu íþróttalönd Vestur-Evrópu tóku þátt, s.s. Bretar, Frakkar, ítalir, Svíar og Spánverjar. ístralir voru sömuleiðis með.
Raunar væri fljótlegra að telja upp þau „alvöru“ íþróttalönd sem sátu heima 1980. Það voru Bandaríkin, Vestur-Þýskaland og Japan. Það voru einu ríkin sem náðu að vinna meira en ein gullverðlaun á ÓL 1976 sem ekki tóku þátt fjórum árum síðar.
Mig minnir að Mogginn og nokkrir forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafi talað fyrir því að Ísland tæki ekki þátt á þessum leikum, en íþróttahreyfingin var gallhörð á móti öllum slíkum hugmyndum.
Fjórum árum síðar hefndu Sovétmenn sín með því að beita sér fyrir því að ríki austurblokkarinnar tækju ekki þátt á ÓL í Los Angeles. ítyllan var „hatursáróður gegn kommúnísku ríkjunum af hálfu Bandaríkjastjórnar“.
Þótt tiltölulega fá ríki tækju þátt í þessum aðgerðum, voru íþróttalegu afleiðingarnar miklu meiri en verið hafði fjórum árum fyrr. Sovétríkin og Austur-Þýskaland sátu heima – en þessi lönd fengu flest og næstflest verðlaun á ÓL 1976, 1980 og 1988.
Ef litið er til ÓL 1976 sést að sex af tíu verðlaunahæstu þjóðunum á þeim leikum tóku ekki þátt 1984. Og á listanum 1988 eru fjórar af sjö efstu þjóðunum. Enda urðu ÓL í Los Angeles til þess að yfirvöld íþróttamála í heiminum komust að þeirri niðurstöðu að við þetta yrði ekki lengur unað og gengust undir mikla svardaga þess efnis að eftirleiðis yrðu pólitískar deilur ekki látnar blandast við íþróttasamskipti á þennan hátt. Þess vegna hef ég enga trú á að neinar öflugar íþróttaþjóðir muni sitja heima í sumar, nánast óháð því hverju fram vindur í Kína.