Mogginn upplýsir það í fréttamola að Meat Loaf sé búinn að banna umboðsmanninum sínum að bóka tónleika í köldum löndum. Hann sé orðinn gamall og ríkur tónlistarmaður, sem þurfi ekki að taka hvaða verkefni sem er og honum finnist ömurlegt að norpa í skítakulda.
Uppsláttur Morgunblaðsins er á þá leið að Meat Loaf muni því ekki spila á Íslandi aftur. Að sjálfsögðu bregst Moggabloggarahjörðin ekki og ákveður að taka þetta óstinnt upp. Gott ef einhverjir hörundsárir Moggabloggarar ætla ekki að henda Meat Loaf-plötunum sínum til að hefna þessarar móðgunar.
Sjálfum finnst mér þetta merkileg tíðindi af öðrum sökum. Nú lítur Meat Loaf einmitt út fyrir að vera heitfengur maður. Hann er mikill um sig og þegar maður sér myndir af honum á tónleikum virðist hann svitna eins og rostungur. (Nú efast ég um að rostungar svitni – en þið skiljið myndlíkinguna.)
Sjálfur er ég heitfengur (les. feitur og loðinn) og eins og hinir ísbirnirnir, vil ég alls ekki vera í of miklum hita. Raunar vil ég helst ekki hafa mikið meiri hita en í gær. Miðað við hvernig þetta vor fer af stað kvíði ég sumrinu.
Ef ég gerist fræg rokkstjarna, er ég að hugsa um að láta umbann minn BARA bóka mig í tónleikaferðir um Kanada, Svalbarða og nyrstu eyjarnar í Japan.