Um daginn sótti ég um vinnu hjá ríkinu – embætti forstjóra varnarmálaskrifstofu. Eins og aðrir umsækjendur tók ég tíma í að fylla út umsókn og mæta í viðtal. Ég þurfti vitaskuld að ræða við núverandi vinnuveitanda, enda var tilskilið að sá sem yrði fyrir valinu þyrfti að hefja störf 1. júní, þótt umsóknarfrestur rynni ekki út fyrr en 2. maí. Það þýðir að allir í þessum 25 manna hópi umsækjenda hafa verið undir það búnir að breyta mjög skyndilega öllum framtíðaráformum sínum – slá sumarleyfum á frest og fara að leita sér að nýju heimili suður með sjó.
Á ljósi þessa er það dapurt að utanríkisráðuneytið skuli ekki hirða um að hafa samband við þá sem ekki fengu starfið, heldur láta nægja að senda fréttatilkynningu til fjölmiðla. Það er virðingarleysi við umsækjendur.
Á þau fáu skipti sem ég hef komið að ráðningu fólks í vinnu (sumarstörf o.þ.h.), hef ég reynt að gæta þess að láta þá sem ekki fengu starfið vita af því eins fljótt og auðið var. Það eru sjálfsagðir mannasiðir.
Reyndar heldur Urður Gunnarsdóttir upplýsingafulltrúi ráðuneytisins því fram á DV-vefnum í fyrradag að þá þegar hafi verið hafist handa við að láta alla umsækjendur vita. „Hún segir ljóst að tíminn hafi verið knappur en að reynt hafi verið að ná sambandi við alla umsækjendurna í dag.“
Þetta er athyglisverð fullyrðing. Sjálfur hef ég ekki fengið tölvupóst og hvorki heimasíminn né farsíminn sem ég gaf upp gefa til kynna að reynt hafi verið að hringja í mig á þessum þremur dögum sem ráðuneytið hefur haft til stefnu. Ef til vill voru þau svo hugulsöm að vilja segja mér þetta í eigin persónu, en ég ekki verið heima þegar þau bönkuðu uppá á Mánagötunni. Um það get ég vitaskuld ekkert fullyrt.
En ef við gefum okkur að fulltrúi ráðuneytisins hafi ekki reynt að bjóða sér í heimsókn, þá eru tveir kostir mögulegir:
i) Að upplýsingafulltrúinn segi ósatt um að ráðuneytið hafi reynt að setja sig í samband við alla umsækjendur
eða
ii) Að ráðuneytið ráði ekki við það flókna verkefni að hringja í rúmlega tuttugu manns eða senda þeim tölvuskeyti á tæplega þremur sólarhringum.
– Ég veit eiginlega hvort væri verra…
Það er þeim mun lakara að heyra ekkert frá ráðuneytinu, þar sem ég fæ þar með ekkert að vita um niðurstöður öryggisvottunarinnar sem umsækjendur áttu að gangast undir í samræmi við lögin um stofnunina og auglýsinguna um starfið. Það er augljóslega mikið hagsmunamál fyrir mig að vita hvort Nató telji mig stórhættulegan mann.
# # # # # # # # # # # # #
Að öðrum og mikilvægari málum:
Framarar töpuðu á Skaganum í gær. Hef sjaldan séð leiðinlegra Skagalið, en leikaðferð þeirra er vissulega árangursrík. Vonandi kemst Henrik Eggerts sem allra fyrst á lappir.