Það er í tísku um þessar mundir að tala illa um menningarlega afstæðishyggju. Að sumra viti jafngildir menningarleg afstæðishyggja nefnilega því að menn leggi blessun sína yfir hvers kyns voðaverk manna úr öðrum samfélögum.
Merkilegt nokk virðast hins vegar sumir þeirra sem tala á þessum nótum vera innblásnir af sögulegri afstæðishyggju. Er þá helst á þeim að skilja að ómögulegt sé að fetta fingur út í gjörðir fyrri kynslóða – því „viðhorfin hafi verið önnur“ fyrr á árum.
Nú er það í sjálfu sér kúnstugt að sama fólk geti amast við afstæðishyggju í rúmi en hampað henni í tíma, en látum það liggja á milli hluta.
Söguleg afstæðishyggja er skynsamleg þar sem hún hjálpar okkur að skilja og fjalla um fortíðina. Ef við ætlum alltaf að þröngva gildismati samtímans upp á fortíðina komumst við ekki mikið áleiðis, en erum sífellt með puttann á lofti af vandlætingu gagnvart forfeðrunum og -mæðrunum.
En á sama hátt og menningarleg afstæðishyggja á ekki að leiða til þess að við samþykkjum og viðurkennum kúgun og valdníðslu í öðrum samfélögum, þá á söguleg afstæðishyggja ekki að verða til þess að við skrifum skilyrðislaust upp á allt það sem sagan hefur að geyma. Dæmi um slíkar ógöngur er þegar fólk afsakar hvers kyns voðaverk og stríðsglæpi með rökunum: „svona nokkuð gerist í stríði!“
Ef vel á að vera verður söguleg afstæðishyggja að rista dýpra en það eitt að menn neiti sér um að nota mælikvarða samtímans á atburði fortíðarinnar – hún krefst þess nefnilega líka að við reynum að skilja þau viðmið sem þá voru ríkjandi og notum þau til að meta hina sögulegu atburði.
Þeir sem nú vilja skjóta sér undan því að ræða hleranamálið gera það með þeim rökum að við getum ekki notað sjónarmið dagsins í dag þegar fjallað er um hleranirnar – þær hafi átt sér stað á öðrum tíma sem ómögulegt sé fyrir okkur að skilja. Punktur og basta.
Þessi röksemdafærsla nær hins vegar ekki nema hálfa leið. Það er hárrétt að ósanngjarnt væri að dæma Bjarna Benediktsson og félaga á grunni þess hvernig menn myndu bregðast við í dag ef upplýst yrði um njósnir af þessu tagi. – En það er heldur ekki það sem verið er að biðja um…
Spurningin er: hvað hefðu menn sagt um þessar hleranir á sínum tíma?
Það er engum blöðum um það að fletta að ef í ljós hefði komið fyrir hálfri öld síðan að dómsmálaráðherra ríkisstjórnarinnar hafi ítrekað látið njósna um pólitíska andstæðinga sína – sitjandi Alþingismenn, forystumenn í verkalýðshreyfingunni o.fl., þá hefði allt orðið vitlaust. Pólitískum ferli hans hefði verið lokið.
Færa má fyrir því rök að málið hefði verið litið alvarlegri augum þá en núna – ekki hvað síst varðandi njósnirnar um þingmennina. Þinghelgi var einfaldlega í meiri metum þá en síðar varð. Dæmi um það eru viðbrögð stjórnmálamanna við því þegar Bretar handtóku íslenskan Alþingismann og fluttu til Englands meðan á hernámi Íslands stóð.
Baldur Kristjánsson skrifar um hleranamálið og segir: „Ég er reyndar svo djúpur að leggja aldrei dóm á annan tíma af sjónarhóli nýs tíma og mun því hvorki fordæma Bjarna heitinn Benediktsson eða þá sem voru lengst til vinstri í pólitík.“ – Þetta er ágæt nálgun eins langt og hún nær – en því má aldrei gleyma að þótt siðferðilegar mælistikur okkar dugi illa til að dæma löngu dána menn, þá bjuggu þessir sömu menn við siðferðilegar mælistikur sinna samfélaga og Bjarni karlinn hefði ekki síður farið halloka í þeim mælingum.