Peter, þýskur félagi minn úr náminu í Edinborg, er slappasti morgunmaður sem ég hef nokkru sinni kynnst. Hann er stór, dálítið luralegur í útliti og frekar fámáll. Og heilinn á honum fer ekki í gang fyrr en upp úr kl. tvö á daginn.
Eða öllu heldur – framyfir hádegi gat nánast ekki talað neina ensku og átti í erfiðleikum með hversdagslegustu tjáskipti. Við hin í náminu héldum að hann væri afglapi eða stöðugt dópaður.
Engu að síður ákváðum við Peter eitt kvöldið að skella okkur á bar að horfa á fótbolta. Þar kjaftaði af honum hver tuska. Á ljós kom að dauðyflið í kennslutímunum okkar á morgnanna reyndist bráðskemmtilegur náungi um leið og kviknaði á heilabúinu. Við urðum góðir kunningjar og ræddum mikið (síðdegis og á kvöldin) um pólitík, bókmenntir og fótbolta. Peter er gallharður 1860 Mí¼nchen stuðningsmaður. Upp frá því reyni ég alltaf að fylgjast með því hvernig 1860 plumar sig.
Peter stoppaði stutt í Edinborg, enda var hann bara í stuttu skiptinemaprógrammi og að fara að hefja doktorsnám við Ludwig-Maximillian háskólann í Mí¼nchen. Hann var einn af aðstoðarmönnum Ulrichs Becks – sem gerði það að verkum að kennararnir í Edinborg sýndu honum nokkra virðingu. Þeir ályktuðu sem svo að stóri skrítni Þjóðverjinn gæti varla verið þroskaheftur úr því að Hr. Beck hefði trú á honum.
Ulrich Beck er eitt stærsta nafnið í tæknifélagsfræði samtímans. Honum hefur líka tekist það sem fáir leika eftir – að vera vinsæll bæði í Bretlandi og á meginlandinu. Þannig á hann upp á pallborðið hjá frönsku töffurunum (Latour og fél.) en líka hjá hinum jarðbundnu Bretum. Hann er líklega frægastur fyrir hugtakið Risikogesellschaft (e. Risk Society), sem þekkt er langt út fyrir raðir félagsfræðinnar.
Ulrich Beck skrifar í dag áhugaverða grein í The Guardian sem víkur að flóknu vandamáli sem tengist kjarnorkuiðnaðinum: Hvernig vörum við afkomendur okkar við?
Margir eru í dag þeirrar skoðunar að kjarnorkan sé raunhæfasta lausnin á orkuvanda Jarðar að teku tilliti til hættunnar á gróðurhúsaáhrifum. Sumir hafa gagnrýnt þær hugmyndir af ótta við að slys í kjarnorkuveri gæti valdið dauða og heilsutjóni fjölda fólks. Aðrir telja að jafnvel þótt engin slys komi til, geti nálegð við kjarnorkuver reynst hættuleg og t.d. aukið hættu á ýmsum krabbameinum. – Þetta eru þó líklega hvort tveggja yfirstíganleg vandamál eða kross sem samfélagið getur ákveðið að bera með þeim rökum að minni hagsmunum sé fórnað fyrir meiri.
Erfiðari er spurningin um geislavirka úrganginn. Þar stöndum við frammi fyrir því að ákveða siðferðislegt réttmæti þess að velta ábyrgð og kostnaði af lífsstíl okkar yfir á þá sem síðar koma.
Það þykir ekki til fyrirmyndar að taka lán til að fjármagna neyslu eða framkvæmdir og senda börnunum eða barnabörnunum reikninginn. Slíkar ráðstafanir má þó réttlæta með því að í mörgum tilvikum sé um að ræða framkvæmdir sem komi næstu kynslóðum til góða – með beinum eða óbeinum hætti. Eftir því sem tékkarnir eru skrifaðir lengra fram í tímann, því erfiðara er þó að grípa til slíkra raka.
Þannig myndi maður svo sem láta sig hafa það ef hluti af sköttunum okkar færi í að borga fyrir kaupin skuttogarakaupin á áttunda áratugnum. Sumir þeirra togara eru enn í fullu fjöri. Blóðugra þætti manni ef háar fjárhæðir færu núna í að greiða fyrir fyrstu togarana sem voru að koma hingað fyrir tæpum hundrað árum – þótt eflaust mætti færa fyrir því rök að þessi skip hafi skapað verðmæti sem aftur hafi nýst til að byggja upp innviði samfélagsins sem við njótum góðs af í dag…
Ef ég þyrfti hins vegar að borga stórar fjárhæðir á ári hverju til að greiða niður kostnaðinn af árlegu kaupskipunum sex frá Noregi, sem tilskilin voru í Gamla sáttmála, þá er hins vegar hætt við því að ýmsir myndu hugsa liðinu frá þrettándu öld þegjandi þörfina.
Kjarnorkuiðnaðurinn virkar eins – nema þar er gengið enn lengra í að senda framtíðinni reikninginn. Sá geislavirki úrgangur sem fellur til í dag verður höfuðverkur manna – ekki bara eftir hundrað eða tvöhundruð ár, heldur þúsundir ára. Mannvirki sem hýsa eiga þessi spilliefni mega ekki endast skemur en egypsku pýramídarnir…
Og þá kemur upp vandamálið – hvernig aðvörum við fólk svo langt fram í tímann? Hvernig upplýsum við manneskjur sem uppi verða árið 7309 e. Kr. um að þær verði að passa upp á skringilegu mannvirkin sem við skildum eftir okkur – að það megi ekki ryðja þeim úr vegi og ef eitthvað komi fyrir, verði samfélagið að ráðast í nauðsynlegan kostnað við að halda innvolsinu í skefjum?
Á þetta löngum tíma er líklegra en ekki að tungumál þau sem nú eru þekkt á jörðinni verði liðin undir lok. Nýjar þjóðir hafa tekið forystuna en aðrar látið undan síga. Ómögulegt er að segja til um hvar menningarleg þungamiðja mannkyns verður eftir nokkur þúsund ár og hvað verða afskekkt jaðarsvæði.
Ulrich Beck segir í greininni frá hópi vísindamanna sem reyndi að svara þessum spurningum á vegum Bandaríkjaþings fyrir nokkrum árum. Þar var stefnt saman mannfræðingum, sálfræðingum, sagnfræðingum, listamönnum og sérfræðingum í táknfræði.
Niðurstaðan var sú að líklega væri vænlegast að notast við eitur-merkið, hauskúpuna og krosslögðu beinin. Ekki var hægt að treysta því að mikið flóknari skilaboð kæmust til skila.
Og jafnvel þessi skilaboð gætu misskilist, bendir Beck á. Sagnfræðingar vöktu athygli á því að meðal gullgerðarmanna miðalda hefði hauskúpumerkið táknað upprisu. Sálfræðingur í hópnum sýndi með einfaldri tilraun fram á að túlkun merkisins færi eftir samhengi. Með því að skella því utan á flösku og sýna hópi þriggja ára barna, skildu krakkarnir strax að um eitur væri að ræða. En þegar sama merki var varpað upp á vegg urðu börnin hin kátustu og hrópuðu: „Sjóræningjar!“
Á dag horfum við forviða á risastytturnar á Páskaey, tröllaukinn steinhringinn í Stonehenge og pýramída í frumskógum Mið-Ameríku og klórum okkur í kollinum yfir því hvort í þeim felist einhver skilaboð og þá hver? En kannski voru þessir forfeður einfaldlega að reyna að segja okkur: Hey, við nenntum hvorki né tímdum að nota umhverfisvænni orkugjafa. Hérna undir er úrgangurinn sem skildum eftir – eruð þið ekki til í að sjá um draslið fyrir okkur? Og passið ykkur á þessu græna, sjálflýsandi ef það fer að leka útum allt…