Matthías Johannesen hefur undarlegar hugmyndir um trúnað í samskiptum. Á hans huga virðist hann fyrnast að ákveðnum tíma liðnum.
Nýjustu uppljóstranirnar tengjast fjármálum Alþýðubandalagsins. Þar er látið í það skína að Ólafur Ragnar Grímsson hafi ekki gert greinarmun á fjármálum flokksins og sínum eigin. Þannig skil ég fréttirnar í það minnsta.
Ég átti um tíma sæti í framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins, einmitt um það leyti sem Margrét Frímannsdóttir var að reyna að koma skikki á fjármál flokksins. Það voru ekki alltaf þægilegir fundir – en það duldist svo sem engum í flokknum að peningastaðan væri vond.
Það er heldur engum blöðum um það að fletta að Einar Karl Haraldsson var alltof duglegur við að eyða peningum sem ekki voru til. Rök hans voru yfirleitt á þá leið að „ef við ætluðum að vera alvöru, nútímaflokkur, þá yrðum við að gera hitt og þetta…“
Ég minnist þess hins vegar ekki að nokkru sinni hafi verið rætt um það í mín eyru að flokkurinn væri að greiða fyrir einkaneyslu Ólafs Ragnars. Allar slíkar vangaveltur held ég að séu óskhyggja pólitískra andstæðinga hans.
Ég var hættur í Alþýðubandalaginu eða á útleið þegar gengið var frá skuldunum, en mér finnst afar ólíklegt að Landsbankinn hafi tekið þær yfir eins og Matthías staðhæfir. Þvert á móti skildist manni alltaf að Sigfúsarsjóður hafi tekið skuldirnar yfir – þótt það væri vissulega á gráu svæði gagnvart stofnskránni.