Andrés Jónsson tekur sér drjúgan tíma í að samþykkja athugasemdir á blogginu sínu. Athugasemd mín við þessa færslu frá því í gærkvöldi er amk ekki enn búin að birtast. Það er því best að nota þennan vettvang í staðinn.
Andrés veltir því fyrir sér hvort Reykjavík hljóti ekki að taka öðrum borgum fram í fjölda borgarstjóra: níu á sautján árum. Hann stingur upp á því að um heimsmet geti verið að ræða – og segist hafa kannað þetta í höfuðborgum hinna Norðurlandanna, þar sem 3-4 hafi ríkt á sama tíma.
Það er skrítin árátta Íslendinga að stökkva til og lýsa yfir heimsmeti að minnsta tilefni. Heimurinn er nefnilega ansans ári stór.
Ef ég ætti að láta mér detta í hug land þar sem valdaskipti stjórnmálamanna eru tíð, þá myndi ég ekki byrja á Norðurlöndunum. Ég færi til ítalíu.
Og sjá – Rómarborg hefur náð níu borgarstjórum á sautján árum. Stórar borgir eins og Tórínó og Flórenskomast upp í 7-8 á svipuðum tímabilum. Palermo á Sikiley rúllar okkur upp… en Reggio Calabria (190 þús. manna borg á tánni á ítalska stígvélinu) hefur náð 12 borgarstjórum á 12 árum.
Borgarstjórnin í Reykjavík er algjört met – en ekki heimsmet…